Þetta verkefni er leysanlegt. Við erum í dauðafæri á því að koma í framkvæmd raunverulegum kerfisbreytingum og lífskjarabótum til lengri tíma.“ Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Fréttablaðið.

Verkalýðsforystan, sem á nú í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, hefur einnig dregið ríkið inn í samtalið, enda snúa margar af kröfum verkalýðshreyfingarinnar að breytingum hjá hinu opinbera.

Ragnar Þór segir, spurður um stöðu kjaraviðræðna, að við stjórnvöld sé verkalýðsforystan nú að ræða mál sem skipti hagsmuni almennings gífurlegu máli. Hann nefnir þar sem dæmi rýmri heilmildir til ráðstöfunar séreignarsparnaðar vegna kaupa á fasteign. Og hann er nokkuð bjartsýnn á stöðuna. „Maður er farinn að sjá til lands í nokkrum málum.“

Hann segist ekki í svipinn sjá stór mál sem ætti að stranda á. Ef stjórnvöldum sé alvara um að koma á vinnufriði í landinu þá hljóti þau að grípa tækifærið sem er núna. „Ég held að stjórnvöld séu í dauðafæri til að standa við stóran hluta af sínum málum sem sett voru fram í stjórnarsáttmálanum.“

Ragnar segir í samtali við Fréttablaðið að ef ríkið standi sig vel núna og að hagstæðir samningar takist þá komi vel til greina að semja til fleiri ára en gert hefur verið undanfarin ár á Íslandi. Hann bendir á að þó samningar á almennum markaði séu lausir núna, þá sé afar stutt í að opinberi markaðurinn verði samningslaus. Það gerist í júní. Hann segist ekki getað ímyndað sér að menn vilji láta þetta rúlla áfram eins og gert hefur verið hingað til – að semja þurfi upp á nýtt á næstum því hverju ári. „Þá mun þetta bara rúlla koll af kolli út kjörtímabilið.“

Sjá einnig: Ragnar um launahækkun bankastjóra Landsbankans: „Ættu að auglýsa stöðuna“

Hann segir hins vegar að sendingar eins og fréttir um svimandi launahækkun bankastjóra Landsbankans, sem Fréttablaðið greindi frá í gær, séu ekki til þess fallnar að auðvelda samninga. Það sama gildi um nýlegar ákvarðanir kjararáðs á launum þingmanna og sveitarstjórnarmanna. „Við getum ekki haldið svona áfram. Félagsmenn okkar láta ekki bjóða sér þetta lengur – þennan tvískinnung. Ég leyfi mér að trúa því að stjórnvöld séu ekki það sofandi að þau skilji ekki reiðina í samfélaginu gagnvart þessu.“

Verkefnið er leysanlegt að mati Ragnars og hann segir að nú sé dauðafæri á því að koma á raunverulegum kerfisbreytingum og lífskjarabótum fyrir almenning til lengri tíma. Það þurfi hins vegar að gera á breiðum grunni, með aðkomu margra. „Ef það næst breið samstaða um kjarabætur þá erum við að tala um lengri kjarasamning sem fleiri koma að. Kannski til þriggja ára.“ Hann segir að til mikils sé að vinna fyrir allt samfélagið; jafnt stjórnvöld sem almenning. „Þetta er mjög flókið viðfangsefni og stórt púsluspil.“

Formaður VR er bjartsýnni nú en áður en kjaraviðræðurnar hófust. „Því ég held að stjórnvöld séu farin að átta sig á stöðunni sem þau eru í, og hversu gífurlegur ávinningurinn væri af því að skapa hér stöðugleika á vinnumarkaði. Þetta væri ekki síst mikilvægt stjórnvöldum enda farin mikill tími og orka í vinnumarkaðsmál, eins og þróunin hefur verið undanfarin ár. „Við hljótum að vilja breyta þessu og búa til þannig umhverfi að fyrir fjölskyldur og fyrirtæki að þau geti gert áætlanir fram í tímann. Það mun hafa áhrif á sölu í landinu, neyslu og fleiri þætti. Það væri eins og piss í skóinn að fleyta þessu áfram um einhverja mánuði. Við eigum að leggja okkur fram við að ná lengri samningi.“