Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, segir breytingar sem kynntar voru í dag um bólusetningarvottorð koma til með að breyta miklu fyrir ferðaþjónustu í landinu en í vikunni verða tekin gild bólusetningarvottorð hjá ferðamönnum utan Schengen.
„Stóra atriðið er náttúrulega þessi viðurkenning á bólusetningarvottorðum vegna þess það er, sem betur fer, sístækkandi hópur sem er bólusettur og fólk sem er með mótefnapróf,“ segir Þórdís í samtali við Fréttablaðið um málið en hún segir breytinguna færa ferðaþjónustunni mörg tækifæri.
„Þegar við göngum frá því að taka þessi vottorð gild, utan Schengen líka, þá er það auðvitað ótrúlega mikilvægur markaður fyrir okkur,“ segir Þórdís. „Þannig að teknu tilliti til þess þá eru, í mínum huga, bjartari tímar fram undan heldur en maður kannski þorði að vona fyrir stuttu síðan.“
Undanþegin aðgerðum
Breytingarnar sem um ræðir voru kynntar af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, og byggja á tillögum sóttvarnalæknis, en breytingarnar taka gildi þann 18. mars.
Samkvæmt breytingunum þurfa þeir sem eru með vottorð um bólusetningu, með bóluefni sem Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt, eða vottorð um fyrri sýkingu COVID-19 ekki að fara eftir aðgerðum sem eru í gildi á landamærunum, til að mynda sýnatöku og sóttkví.
Meiri fyrirsjáanleiki
Enn stendur til að taka upp litakóðunarkerfi á landamærunum þann 1. maí næstkomandi en kerfið verður þá byggt á reglulega uppfærðu áhættumati Sóttvarnarstofnunar Evrópu og ríki flokkuð í græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins.
Þórdís segir breytingarnar sem kynntar voru í dag auka fyrirsjáanleika svo um munar, meiri en getur fengist með litakóðunarkerfinu þar sem það er ýmislegt annað sem spilar inn í þar, til að mynda hvort lönd séu að skima nóg til þess að litakóðunarkerfið endurspegli stöðuna.
„Þannig þetta er allt töluvert skýrara og einfaldara og fyrirtækin geta þá athafnað sig samkvæmt því. Þetta er allt einhvern veginn að breytast en ég held að þetta sumar geti orðið bjartara heldur en við töldum fyrir ekkert svo löngu síðan.“