Það er heilmikið vitað í vísindunum um áhrif birtu og ljóss á heilsu og líðan einstaklinga. Meginviðfangsefnin hafa í þessum rannsóknum verið vaktavinnufólk og svo þeir sem eru að vinna við sérstakar aðstæður. Slíkar aðstæður þekkjum við vel á norðurhveli jarðar, bjartar sumarnæturnar þar sem sólin varla sest og svo langir dimmir dagar á veturna. Nóttin getur virst endalaus og það hefur vissulega áhrif á einstaklinga, bæði leynt og ljóst.

Líkaminn þarfnast þess að hvílast og endurnærast og þar spilar melatónín talsvert hlutverk, en það er hormón sem er framleitt í heilakönglinum og stýrir svefn-vöku hringrás okkar. Það er hins vegar sjónhimna augans sem nemur birtuna í kringum okkur og gefur merki um það til heilakönguls í gegnum ákveðna hluta heilans hvort framleiða eigi melatónín eða ekki. Að nóttu til og við lítil birtuskilyrði eykst framleiðslan og öfugt. Virkni hormónsins er styðjandi við svefn, hægir á púlsi, öndun og líkamshita sem ýtir undir betri svefn. Þetta jafnvægi getur auðveldlega raskast sem við þekkjum vel ef við t.d. ferðumst yfir tímabelti og röskum líkamsklukkunni svokölluðu. Slíkt hið sama gerist þegar hringlað er með birtuskilyrðin í kringum okkur almennt og gildir þá einu hvort er vegna breiddargráðu, vinnuskilyrða, snjalltækja eða annars.

Flestir þekkja það af eigin raun að finna til meiri orku og minni svefnþarfar að sumri til, öfugt við einmitt veturinn þegar gott er að kúra lengur. Umræðan um að breyta klukkunni hefur að talsverðu leyti með þá staðreynd að gera. Þær rannsóknir sem ég vísaði í að ofan, líkt og kom fram, miðast við vaktavinnufólk og þá staðreynd að það er óhollt að snúa sólarhringnum við eða breyta líkamsklukkunni. Andleg vanlíðan, aukin depurð og þunglyndi eru þekktar afleiðingar, þróun offitu hefur verið nefnd í þessu samhengi, hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, bólgusjúkdómar og jafnvel ófrjósemi. Þannig er í mörg horn að líta þegar kemur að þessum hópi starfsmanna varðandi heilsu og vinnuvernd. Rannsóknir á notkun gervidagsbirtu á vinnustöðum eru talsverðar og hafa sýnt jákvæðar niðurstöður.

Það eru margar stéttir sem vinna vaktavinnu og þjóðfélagið virkar ekki sem skyldi ef slík vinna er ekki unnin, hvort heldur sem er í lögreglu, heilbrigðiskerfi, samgöngum, framleiðslu eða hvað við viljum nefna. Þess vegna er afar mikilvægt að huga sérstaklega að forvörnum þeirra hópa sem vinna við það að snúa sólarhringnum á hvolf.

Heilsufarslegur ávinningur af björtum sumarnóttum er því miður ólíklegur. Minni svefnþörf vegna aukinnar birtu skilar sér fyrir rest í svefnskuld. Tímabundið kann að fylgja aukin orka en á endanum þarf að snúa ofan af vökutímanum með hvíld. Þarna gildir líklega eins og alls staðar að jafnvægi er kúnstin eina sem þarf að kunna. Við vitum að einstaklingar þurfa ákveðið langan svefn á hverjum sólarhring og minnkar svefnþörfin eitthvað með aldri líkt og með unglinginn og hinn fullorðna svo dæmi sé tekið. Almennt má segja að 7-8 klukkustundir sé hæfilegur svefn fyrir fullorðna og þá að því gefnu að svefngæðin og hvíldin séu eðlileg.