Þrátt fyrir að mikið hafi verið um rigningar í sumar og minna um sól og blíðu virðast viðmælendur helgarblaðsins flestir sammála um að birtan og langir dagar séu það besta við íslenska sumarið.

Þórunn Antónía Magnúsdóttir - tónlistarkona:

Hvað ætlar þú að gera um helgina?

Helgin hjá mér byrjaði snemma þar sem ég var með Partý karíókí á Sæta svíninu á miðvikudaginn og svo kom ég fram í opnunarteiti Druslugöngunnar á Kex á fimmtudaginn. Gangan sjálf er svo í dag og hvet ég sem flesta til að koma og sýna kynferðisbrotaþolum sinn stuðning í samhug og verki. Síðan er ég með Partý karíókí á Paddy’s í Keflavík í kvöld svo það er brjálað að gera og mikið fjör og mikið gaman.

Hvað finnst þér það besta við íslenskt sumar?

Það sem mér finnst best við íslenska sumarið er að það er að sjálfsögðu heitara og bjartara á okkar magnaða landi. En birtan getur líka verið ókostur. Það er kannski kostur þegar maður er barnlaus en þegar maður er með börn sem halda að það sé kominn dagur ef þau rumska á miðnætti þá er það ekkert sérstaklega hentugt. En það er ekkert betra en íslenskt sumar.

Þórunn Antónía Magnúsdóttir
Mynd/Aðsend

Friðrik Róbertsson - Floni, tónlistarmaður

Hvað ætlar þú að gera um helgina?

Það sem ég mun gera um helgina er að slaka vel á og gigga, klára íbúðina sem ég var að kaupa mér með konunni og svo mun ég vinna í næstu plötu sem er væntanleg, Floni 3.

Hvað finnst þér það besta við íslenskt sumar?

Það besta við íslenska sumarið eru fallegar, bjartar sumarnætur.

Friðrik Róbertsson - Floni.
Mynd/Aðsend

Sigríður Thorlacius, tónlistarkona

Hvað ætlar þú að gera um helgina?

Eg ætla að pakka mér og mínum í bíl og fara að Ásbrekku í Gnúpverjahreppi og halda þar tónleika ásamt mínum bestu mönnum í Góss. Við spilum þar í ævintýralega flottum bragga á landareigninni hjá vinafólki okkar. Þess utan er mín daglega rútína þessa dagana að labba um með lítinn kút og finna róló. Það breytist ekkert þessa helgina.

Hvað finnst þér það besta við íslenskt sumar?

Það sem er best við íslenskt sumar er hversu spontant það er og þarf að vera. Þegar við fáum óvænta sólarglætu þá hlaupa allir upp til handa og fóta, loka skrifstofunni snemma og kveikja upp í grillinu. Börnin mega vaka og allir njóta stundarinnar í botn og til fullnustu. Slíkar stundir í íslenskri sveit toppar svo ekki neitt í veröldinni.

Sigríður Thorlacius

Patrekur Jaime Plaza -Patti. Raunveruleikastjarna

Hvað ætlar þú að gera um helgina?

Ég ætla að taka rólega helgi í þetta skiptið. Örugglega kíkja út að borða á Tapas og svo bara kósí heima.

Hvað finnst þér það besta við íslenskt sumar?

Mér finnst best við íslenska sumarið hvað það er bjart. Ég elska að það sé bjart allan sólarhringinn og svo er þessi sumarlykt í loftinu sem er æði!

Patrekur Jaime Plaza

Guðríður Torfadóttir- Gurrý. Þjálfari og eigandi Yama heilsuræktar

Hvað ætlar þú að gera um helgina?

Ég ætla að mála baðherbergið hjá mér um helgina þannig að ég verð bara í bænum að stússast. Tek svo pottþétt æfingu í Yama og svo er planið að hitta fólkið mitt og litla barnabarnið.

Hvað finnst þér það besta við íslenskt sumar?

Ég elska birtuna sem fylgir íslensku sumri enda veitir ekkert af eftir veturinn. Fer oft í göngutúr seint á kvöldin þegar flestir eru sofnaðir og þá er birtan og lyktin í loftinu svo magnað dæmi.

Guðríður Torfadóttir

Kolbeinn Arnbjörnsson- leikari og myndlistarmaður

Hvað ætlar þú að gera um helgina?

Stóru málin verða afgreidd um helgina. Ég þarf að finna mér sundbuxur áður en ég fer að leita að sumrinu í Suður-Frakklandi í lok mánaðar, ég ætla að hræra upp í moltunni og setja í leiðinni niður basilíku og kóríander, klára að lesa bókina Daughter eftir Öldu Sigmundsdóttur, njóta samveru með stelpunum mínum og matreiða með þeim mexíkóska veislu með nýja uppáhaldsverkfærinu mínu sem er tortillapressa. Ef einhver dauð stund finnst þá verður henni eytt í sófanum þar sem við Aldís Amah erum djúpt sokkin í þáttaröðina Better Call Saul.

Hvað finnst þér það besta við íslenskt sumar?

Uppáhaldið mitt við þetta sumar hafa verið óvenju margir og vel heppnaðir frídagar í samveru með uppáhaldsfólkinu mínu. Bæði erlendis og hérlendis, í bústað, norður á Ólafsfirði og heima í hversdagslegum gjörðum.

Kolbeinn Arnbjörnsson