„Ég myndi halda að þetta verði norðan 5-10 en gæti farið eitt­hvað ör­lítið yfir það ef maður stendur uppi á fjalli til dæmis,“ segir Óli Þór Árna­son, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands um veðrið á gos­stöðvunum og varar fólk við því að skoða bara veðrið heima hjá sér.

„Ég veit að fólk freistast til að skoða yfir­borðs­vinda­kort, og þau passa á­gæt­lega við lág­lendið, en þetta er náttúr­lega ekki lág­lendi. Maður er kominn upp í 300 metra hæð þarna. Það er meiri vindur í lofti en maður heldur,“ segir Óli Þór og bætir við: „Maður getur ekki bara litið á veðrið í garðinum hjá sér þegar maður leggur af stað og gert ráð fyrir að það verði eins þegar maður kemur á svæðið.“

„Gasmengunin fer beint til suðurs og lík­lega yfir megnið af þessum göngu­leiðum sem eru þarna fyrir. Seinni­partinn og undir kvöld fer hún að verða vestan­stæðari og gasmengunin færist þá austar sem lík­lega fríar eitt­hvað af göngu­leiðunum,“ segir hann.

Óli Þór varar hins vegar við næstu nótt. „Það sem gerist næstu nótt er að lægir eigin­lega al­ger­lega. Það er kannski það vara­samasta því þá safnast gasmengunin fyrir í þessum lautum og lægðum á svæðinu. Það eru lík­lega hættu­legustu að­stæðurnar,“ segir hann.

Skítaveður annað kvöld


Í fyrra­málið er spáð sunnan- og suð­austangolu og þá færist mengunin til norðurs, yfir Voga, Vatns­leysu­strönd og jafn­vel til Kefla­víkur að sögn Óla Þórs. Þá á hitinn líka að hækka. „Þannig að það verður eitt­hvað lág­skýjað á svæðinu og eftir því sem líður á daginn bætist við vindur og úr­koma. Það verður bara skíta­veður á svæðinu annað kvöld.“
Óli Þór segir að það verði tölu­verður lægða­gangur á svæðinu eftir helgi.

„Dagurinn í dag myndi ég halda að verði bjartastur, þurrastur og skástur. Síðan á morgun er þetta orðið þung­búið, suddi og rigning. Það verður þung­búið á laugar­daginn og eitt­hvað tak­markað skyggni. Á Sunnu­dag verður sæmi­leg lægð með mikilli rigningu og líka á mánu­daginn og þriðju­daginn. Mið­viku­dagurinn kemur með eitt­hvað bland í poka.“

Um gasmengunina segir Óli Þór að enn vanti full­komnar mælingar en sé gosið kraft­meira sé lík­lega meira gas í loftinu.

Lognið vara­samast

„Maður hefur á­hyggjur af því að fólk stilli sig inn á minnsta vindinn, en það gætu líka orðið hættu­legustu að­stæðurnar,“ segir hann.

Til að vindurinn nái til höfuð­borgar­svæðisins þarf hann að vera. Í fyrra voru að mælast reyk­stig sem voru yfir heil­brigðis­við­miðum í stuttan tíma að sögn Óla Þórs. „Strax í fyrra­málið er vindurinn að snúast í suð­lægar áttir, sem er kannski verra fyrir byggðirnar. Þeir sem eru við­kvæmir fyrir slíku kunna að verða að loka gluggum og tak­marka úti­veru eitt­hvað,“ segir hann.

Óli Þór segir að mengunin falli fyrr út ef það rigni og ein­hver þynning verði á leiðinni.

„Úr­koma gæti þannig hjálpað okkur eitt­hvað í byggða­kjarnanum á Suð­vestur­horninu. Mengunin gæti mælst eitt­hvað minni ef það fellur út í menguninni og ef vindur er mikill og reykurinn fær ein­hverja loft­blöndu. Á næstu dögum munum við lík­lega sjá til­tölu­lega há gildi hérna,“ segir Óli Þór.