„Okkur líður vel í húsinu, hér er bjart, eldunaraðstaðan er góð og húsið virðist gott,“ segir Krystyna Ivaschenko frá Úkraínu sem dvelur í Geo-hotel í Grindavík sem áður var félagsheimilið Festi. Ivasch­enko kom hingað til lands um miðjan desember.

Bæjarráð Grindavíkur er mjög ósátt við vinnubrögð stjórnvalda í málinu. Segir í bókun bæjarráðs að útleiga hússins fyrir fólkið samræmist ekki samþykktri notkun. Þá kom fram í blaði Víkurfrétta að húsnæðið væri myglað. Eigandi hússins kannast lítið við þessar staðhæfingar.

Eigandinn bendir á að það hafi mælst mygla í einu herbergi af 38 vegna leka frá þaki, sem hafi verið lagað og nýtt leyfi fengið frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja eftir að eftirlitið var búið að skoða hótelið og staðfesta að engin merki væru um myglu í fasteigninni. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.

Vinnumálastofnun segir í bréfi til bæjarins að hótelið sé eina húsnæðið sem sé fast í hendi til þess að mæta brýnni húsnæðisþörf fyrir flóttafólk og fólk sem sé að sækja um alþjóðlega vernd.

Því þurfi að taka húsnæðið í notkun þrátt fyrir afstöðu heimamanna.

Þegar Fréttablaðið settist niður með kaffibolla á hótelinu í gær var varla að sjá annað en húsnæðið væri í góðu standi og góður andi innandyra.

Hópurinn sem blaðið sat með var annars vegar frá Úkraínu og hins vegar par frá Venesúela en konan ber barn undir belti. Hópurinn var sammála um að erfiðast væri að hafa lítið á milli handanna og mega ekki leita að vinnu.

„Við fáum þrettán þúsund krónur á viku fyrir tvær manneskjur,“ segir Krystyna og segir að peningarnir dugi lítið fyrir búðarferð á verðlagi dagsins í dag.

Grindvíkingar höfnuðu samningi við Vinnumálastofnun um að taka við flóttamönnunum í upphafi og hafa hótað stjórnvöldum dagsektum.

„Það er dýrt að lifa hér í Grindavík og jafnvel þótt við mættum leita að vinnu þá kostar það þrjú þúsund krónur að fara til Reykjavíkur. Við höfum augljóslega ekki ráð á því,“ bætir Krystyna við.

En þrátt fyrir allt er hún brosandi yfir að vera á Íslandi, fjarri átökunum í heimalandinu.