Gul viðvörun er í gildi á suðausturlandi en norðarnátt fer þar í 15-20 m/s, en hægari vindur vestan Öræfa. Búist er við snörpum vindhviðum undir austanverðum Vatnajökli, um 30 m/s.

Það er því varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að fara þar um.

Bjart og hlýtt sunnan og vestantil á landinu

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar kemur fram að norðlæg átt er á landinu í dag, víða 5-10 m/s, en hvassara suðaustantil framan af degi. Það verður áfram bjart og hlýtt veður sunnan- og vestanlands, en hitinn þar verður á bilinu 11 til 17 stig yfir daginn.

Á Norðaustur- og Austurlandi verður hins vegar mun svalara, og þar má búast við rigningu eða slyddu með köflum, og jafnvel snjókomu á fjallvegum. Eftir hádegi dregur smám saman úr vindi, og styttir upp norðaustanlands.

Á morgun gengur í suðaustan strekking með rigningu um landið sunnan- og vestanvert, en það verður lengst af úrkomulítið norðaustantil. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast fyrir norðan. Annað kvöld snýst svo í hægari suðvestanátt og dregur úr úrkomu.