Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist bjartsýnn, líkt og hann var vorið 2021 þegar öllu var aflétt, en staðan í dag sé önnur en hún var í fyrra áður en öllu var skellt aftur í lás.

Landsmenn velta óneitanlega fyrir sér hvort sagan endurtaki sig. Bjarni segir að í fyrra hafi bólusetningar ekki náð að hemja smit eins og vonast var til. Nú sé staðan önnur í ljósi Ómikron afbrigðisins.

„Nú erum við komin með allt aðra stöðu og að því er virðist minni alvarleg veikindi vegna góðrar bólusetningarstöðu þjóðarinnar og eðli þessa afbrigðis. Það er ekki bara hér á landi heldur víða í kringum okkur þar sem menn eru að horfa á afléttingarfasa.“

Ríkisstjórnin vonast til að samfélagið geti farið aftur í eðlilegt horf eftir sex til átta vikur og landsmenn lifað eðlilegu lífi.

Hvað er eðlilegt líf?

„Það er líf þar sem fréttamenn eru ekki með grímu eins og þú ert með núna. Það er líf þar sem við erum ekki stanslaust að gera próf á okkur sjálfum eða sæta sóttkví og einangrun. Þar sem við getum um frjálst höfuð strokið án þess að hafa of miklar áhyggjur af sýkingu,“ segir ráðherrann.

Bjarni segist búast við því að samfélagið muni þurfa að takast á við ný vandamál af þessum toga.

„Vonandi höfum við þá lærdóm að draga af þessum tveimur árum.“