Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, telur lang­best til að tryggja að ekkert sé í skugganum um sölu banka­sýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkisins í Ís­lands­banka að Ríkis­endur­skoðun fari yfir söluna.

„Vegna þeirrar gagn­rýni sem fram hefur komið þá held ég að það sé lang­best, til þess ein­mitt að tryggja að það sé ekkert í skugganum, og það sé bara vel farið yfir þá fram­kvæmd sem við höfum hér nú ný­gengið í gegnum, að við fáum Ríkis­endur­skoðun til að taka út fram­kvæmd út­boðsins og fara yfir það fyrir þingið,“ sagði Bjarni á Al­þingi í dag.

Hall­dóra Mogen­sen, þing­maður Pírata, spurði Bjarna af hverju ein­staklingar með „vægast sagt“ vafa­sama for­tíð fengu að kaupa í út­boðinu.

„Yfir­lýst mark­mið með að veita lokuðum hópi fjár­festa þennan af­slátt væri að finna treysta lang­tíma­fjár­festa sem fram­tíðar­eig­endur bankans. Tekin var með­vituð á­kvörðun um að veita þennan af­slátt og nota lokað út­boð til að laða að stofn fjár­festa sem lang­tíma eig­endur bankans,“ sagði Hall­dóra.

„Ráð­herra sem á­byrgðar­aðili þessa út­boðs hefði auð­veld­lega getað sett reglur eða ramma um það hvernig fjár­festum skyldi hleypt af en þess í stað var um að ræða nokkurs konar villta vesturs þar sem fimm sölu­fyrir­tæki tóku kvöld­stund í að hringja í sér upp­á­halds fjár­festa,“ sagði Hall­dóra enn fremur.

„Enginn hand­valinn. Þetta var opið út­boð“

Bjarni sagði það rangt með farið að fjár­festar hefðu verið hand­valdir heldur var um opið út­boð að ræða þar sem allir þeir sem upp­fylltu skil­yrði gátu keypt.

„Það var engum sér­stak­lega hleypt að í þessu ferli heldur var það ljóst frá upp­hafi að þeir sem töldust hæfir fjár­festar máttu taka þátt. Hvað er hæfur fjár­festir? Það er fjár­festir sem hefur næga reynslu og þekkingu til þess að það megi selja hana án þess að það sé gefin út út­boðs­lýsing og allir þeir sem gáfu sig fram lýstu á­huga á því að taka þátt í þessu út­boði sem var opin­bert af hálfu Banka­sýslunnar og upp­fylltu skil­yrði um að vera hæfir, sem sagt annars vegar og voru reiðu­búnir að greiða verðið sem Banka­sýslan á endanum lagði til og ég sam­þykkti. Þeir fengu að taka þátt. Enginn hand­valinn. Þetta var opið út­boð,“ sagði Bjarni.

Hann bætti jafn­framt við að þegar það kemur að ein­stökum kaup­endum sem Hall­dóra taldi mis vel til þess fallnir að fara með eignar­hlut í fjár­mála­fyrir­tæki þá kveða lög um það ef ef ein­staklingar eða lög­aðilar vilja fara með virkan eignar­hlut, yfir 10 prósent, þá þurfa þeir að fara í gegnum sér­stakt nálar­augað. „Það gildir ekki fyrir smáa eignar­hluti. Þar gilda aðrar reglur,“ sagði Bjarni.