Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ver skipun Jóns Gunnarssonar í embætti innanríkisráðherra í dómsmálaráðuneytinu.

Skipun Jóns Gunnarssonar til átján mánaða kom mörgum á óvart en arftaki hans, Guðrún Hafsteinsdóttir, hefur þegar lýst vonbrigðum yfir að taka ekki við strax. Sjálfur Jón Gunnarsson kom af fjöllum þegar hann var inntur eftir viðbrögðum.

Halldóra Mogensen spyr hvort dómsmálaráðuneytið eigi ekki skilið meiri stöðugleika.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, spurði Bjarna spjörunum úr á Alþingi í dag og sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa í síðustu kosningum sett af stað mestu ráðherrahringekju Íslandssögunnar án haldbærra útskýringa gagnvart þjóðinni.

„Þessar mannabreytingar lyktar frekar af vantrausti í garð einstakra ráðherra frekar en faglegu mati,“ sagði Halldóra í óundirbúnum fyrirspurnum á þingfundi í dag. Hún segir ljóst að áhuga eða reynsla ráðherra af verkefni ráðuneytanna skipti litlu máli.

Fimm ráðherrar á sex árum

Halldóra spurði Bjarna hvort Jón væri í raun besta dómsmálaráðherraefni flokksins. Frá 2017 hafa fjórir ráðherrar gegnt þessu embætti; Sigríður Á. Andersen, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nú Jón Gunnarsson og eftir átján mánuði tekur Guðrún Hafsteinsdóttir við. Árið 2023 munu fimm ráðherrar hafa gegnt þessu embætti á sex árum.

Til vinstri: Ráðherrar í dómsmálaráðuneytinu frá 2017. TIl hægri: Guðrún Hafsteinsdóttir sem tekur við embættinu eftir 18 mánuði.
Fréttablaðið/Samsett mynd

„Mér finnst áhugavert að spyrja hæstvirtan ráðherra að útskýra hvernig honum tekst að bera fullt treysta að mér heyrist til hæstvirts dómsmálaráðherra en samt bara treysta honum til að gegna embættinu í 18 mánuði. Dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa átt í stökustu vandræðum með að sitja út heilt kjörtímabil,“ sagði Halldóra og spurði hvort ráðuneytið ætti ekki skilið smá stöðugleika.

„Hann að minnsta kosti er að mínu áliti mjög gott ráðherraefni,“ svaraði Bjarni og sagði reynslu Jóns innan almannavarna nýtast vel. „Þannig að já, ég verð nú að segja það að ég held að ég hafi valið góðan mann.“

Aðspurður um þann endalausu ráðherraskiptin sagði Bjarni að það væru bara svo margir hæfir einstaklingar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. „Við þurfum að skipta verkum milli fólks.“