Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var í 40 til 50 manna samkvæmi í sal í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. Þetta herma áreiðanlegar heimildir Fréttablaðsins. Hvorki hefur náðst í Bjarna eða aðstoðarmenn hans í dag.
Lögregla fékk tilkynningu um brot á samkomutakmörkunum klukkan að verða hálf ellefu og stöðvaði samkvæmið. Tilkynning frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í morgun þar sem greint var frá því að einn ráðherra í ríkisstjórn Íslands hafi verið meðal gesta í samkvæminu.
Í tilkynningunni segir: „Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt. Lögreglumenn sáu aðeins 3 sprittbrúsa í salnum.“ Gestum gleðskaparins var svo vísað út.
Þá hafa fjölmiðlar náð í alla aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar eða aðstoðarmenn þeirra nema Bjarna og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Sem fyrr segir herma þó áreiðanlegar heimildir Fréttablaðsins að það hafi verið Bjarni sem var í samkvæminu.