Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að komandi kosningar snúist fyrst og fremst að koma í veg fyrir vinstristjórn á næsta kjörtímabili.
Bjarni var gestur í þættinum Pólitíkin með Páli Magnússyni á Hringbraut, ræddi hann við Pál um hvernig ríkisstjórn hann sæi fyrir sér eftir kosningar. „Að hér verði ekki til vinstristjórn eftir kosningar, það er stóra málið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið aflið sem hefur komið í veg fyrir það hingað til og það er það sem við stefnum á að gera,“ sagði Bjarni.
Núverandi stjórn óskastaðan
Fyrsti kosturinn væri að halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi með Vinstri grænum og Framsóknarflokki, það væri ekki óskastaða en það þyrfti að gera það til að koma í veg fyrir vinstristjórn.
„Ef við þurfum að mynda svona breiða stjórn aftur til að koma í veg fyrir að það gerist, þá munum við gera það. Ef við getum myndað ríkisstjórn á grundvelli sterkrar stöðu eftir kosningar sem er meira í takt við þær helstu áherslur sem við erum með, til dæmis í efnahagsmálum og í grænum málum, þá myndum við skoða þann möguleika. Fyrsti kosturinn ef stjórnin heldur velli hlýtur að vera að gefa því séns,“ sagði Bjarni.
Miðflokkurinn og Viðreisn ekki áhrif
Bjarni sagði að Miðflokkurinn og Viðreisn hefðu ekki áhrif á stöðu Sjálfstæðisflokksins. „Mér finnst svolítið spaugileg þessi kenning þín um að Miðflokkurinn sé klofningur út úr Sjálfstæðisflokknum, þetta er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins sem féll á landsþingi Framsóknarflokksins,“ sagði Bjarni. „Og við bættum við okkur fylgi þegar Viðreisn varð til.“
Hér má horfa á þáttinn í heild sinni: