Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segist ekki sjá eftir því að hafa hætt í pólitík eftir að hann sendi óvart póst á alla fjölmiðla landsins að gagnrýna þáverandi varaformann flokksins.
Bjarni er gestur í Mannamáli í kvöld og ræðir við Sigmund Erni Rúnarsson um tölvupóstinn fræga sem hann sendi óvart á alla fjölmiðla þar sem farið var hörðum orðum um Valgerði Sverrisdóttur sem þá var varaformaður Framsóknar.
Pósturinn reyndist banabiti hans í pólitík en tæpum tveimur mánuðum síðar sagði hann sig úr flokknum. Tölvupósturinn sem Bjarni sendi aðstoðarmanni sínum þetta örlagaríka kvöld og um leið á alla fjölmiðla landsins hljóðaði svona:
sæll
hér er merkilegt bréf
ertu til í að búa til anymous netfang og senda þetta úr því á alla fjölmiðla
-b
Skömmu síðar sendi hann annan tölvupóst til fjölmiðla þar sem hann sagði þann fyrri hafa farið út fyrir mistök og bað um að fyrra bréfinu yrði eytt og að fjölmiðlar nýti hvorki efni þess né þessi mistök hans.
Kanntu ekki að senda netpóst?
„Jú jú. Ég held að þetta hafi bara verið forlögin sem stýrðu þessu,“ segir Bjarni en þarna var hann búinn að sitja á þingi og var farinn að átta mig á því að þingmenn væru blórabögglar og hefðu í raun engin völd eins og hann orðar það.
Aðspurður um póstinn segist Bjarni aldrei hafa lesið bréfið sem fylgdi með.
„Ég hef aldrei lesið þennan póst. Þetta var eitthvað bréf sem Gunnar í Flatatungu og vinur hans Sigtryggur hefðu skrifað um Valgerði og snerist ekki um eitt né neitt. Það varð einhver æsingur en fyrst og fremst var þetta mér tækifæri til að segja skilið við þetta.“
Þátturinn er sýndur á Hringbraut í kvöld klukkan 19:00 en hér fyrir neðan má sjá stiklu úr þættinum.