„Það er ó­þolandi að þetta hafi gerst en við því verður að bregðast,“ segir Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra, í færslu á Face­book um kröfu Fjár­sýslu ríkisins um að endur­greiða skuli of­greidd laun ýmissa ráða­manna, alls 260 ein­stak­linga.

Mis­tökin komu í ljós við undir­búning launa­breytinga fyrir nú­verandi ár og verður endur­greiðslan ýmist dregin af launum eða stofnaðar verða kröfur í jöfnum hlutum í 12 mánuði.

„Í raun er málið ó­sköp ein­falt. Það snýst um að út­greidd laun voru hærri en þau laun sem greiða átti lögum sam­kvæmt,“ segir Bjarni.

Kjartan Bjarni Böðvars­son, for­maður Dómara­fé­lags Ís­lands sagði í færslu á Face­book að á­kvörðunin væri geð­þótta­á­kvörðun. „Þessi lækkun mun vera í um­boði fjár­mála­ráð­herra sem boðað hefur frekari og aftur­virkar skerðingar á launum dómara,“ sagði hann.

Bjarni segir þetta ekki vera rétt. „Laun dómara eins og annarra æðstu em­bættis­manna eru ekki að lækka, eins og for­maður dómara­fé­lagsins hefur sagt. Þau eru leið­rétt núna um mánaða­mótin og hækka svo frá 1. júlí um 6,9% frá þeirri leið­réttingu,“ segir Bjarni.

„Að ræða um geð­þótta­á­kvörðun fjár­mála­ráð­herra í þessu sam­hengi er frá­leitt. Fjár­hæðin er lög­á­kveðin.“

Bjarni segir mál­stað þeirra sem mót­mæla leið­réttingu á of­greiddum launum vera auman. „Ég vænti þess að þeir vilji bera fyrir sig að hafa tekið við of háum launum undan­farin ár í góðri trú,“ segir hann.

„Að halda því fram, líkt og for­maður dómara­fé­lagsins gerir, að þetta ein­falda mál snúist um rétt borgaranna til rétt­látrar máls­með­ferðar fyrir sjálf­stæðum og ó­vil­höllum dóm­stólum stenst aug­ljós­lega enga skoðun,“ segir Bjarni.

Bjarni segir málið snúa meira um það að fólkið í landinu ætti ekki að hlusta á að það sé of flókið fyrir efsta lag ríkisins að skila því sem of­greitt var úr opin­berum sjóðum. „Annað væri hrika­legt for­dæmi og er ekkert minna en sið­ferðis­brestur,“ segir hann.