Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, fór víða í við­tali við hann í Sprengi­sandi á Bylgjunni, núna rétt fyrir há­degi. Hann segist ekki hafa komið auga á neitt lög­brot við fram­kvæmd sölu á hluta ríkisins í Ís­lands­banka.

Bjarni hefur sætt gagn­rýni síðustu vikur og verið sakaður um að „gefa“ hluta af Ís­lands­banka til út­valinna ein­stak­linga. Hann segir þetta þó ekki standast neina skoðun og segir að ef málið er skoðað af sann­girni þá hafi salan verið stór­kost­legur árangur fyrir ríkis­sjóð. „Við erum að selja bankann á 50 prósent hærra verði en síðast,“ sagði Bjarni.

Páll hafi farið með rangt mál

Bjarni gagn­rýndi fjöl­miðla fyrir að hafa fjallað um færslu Páls Magnús­sonar, fyrr­verandi þing­manns Sjálf­stæðis­flokksins, eins og það væri heill sann­leikur. Páll skrifaði í færslunni að fé­lagi hans hafi fengið boð um að kaupa í Ís­lands­banka og morguninn eftir hafi hann selt bréfin og grætt milljónir.

Bjarni segir þetta ekki vera satt, út­boðið hafi farið fram á þriðju­degi og upp­gjörs­dagur út­boðsins hafi ekki verið fyrr en á mánu­deginum, nær viku síðar. Hann segir engan geta hafa selt daginn eftir. „En þetta flytjið þið fjöl­miðla­mennirnir. Það þarf að skoða þetta af sann­girni,“ segir Bjarni. Hann segir það ekki skipta máli að þessi frá­sögn hafi komið frá sam­flokks­manni sínum.

Segir ekki margt hafa farið úr­skeiðis

Þegar Kristján Kristjáns­son, þátta­stjórnandi Sprengi­sands spurði Bjarna af því hvað honum hafði fundist fara úr­skeiðis í út­boðinu, segir Bjarni það ekki hafa verið margt. Kristján taldi þá upp það sem bent hefur verið á í út­boðinu, þá segir Bjarni málin vera til skoðunar af við­eig­andi stofnunum.

Bjarni segir ekki vera hægt að skrifa það á pólitíska á­byrgð fjár­mála­ráð­herra, ef á­kveðnir hlutir hafi farið úr­skeiðis.

Hann segir ekki hafa verið þörf á að hann myndi skoða hvern og einn kaupanda, til þess sé Banka­sýsla ríkisins. Hann segir hlut­lægar reglur passi upp á það að einungis menn sem upp­fylla á­kveðin skil­yrði geti keypt í út­boðinu. Það sé á á­byrgð sölu­aðilans ef aðrir en hæfir fjár­festar hafi keypt í út­boðinu.

Segir sótt að sér

Bjarni segir vera sótt að sér í augna­blikinu, „Eldarnir brenna næst mér,“ sagði hann. Hann segist þó vera stoltur yfir því hvernig hefur tekist að taka til í ríkis­fjár­málum, losa okkur úr þeim höftum sem færðu okkur bankann, skrá hann síðan í miðjum heims­far­aldri, fara í út­boð og fá fjöl­breyttan hóp fjár­festa.

Bjarni segir það ekki trufla sig að nokkur hundruð manns mæti á mót­mæli gegn honum, „Það er verk að vinna að út­skýra hvað var hér á ferðinni og hvað hefur gerst síðan við tókum yfir bankann“, sagði hann.

Helga Vala Helga­dóttir, þing­kona Sam­fylkingarinnar, gagn­rýnir Bjarna fyrir svör sem hann gaf í við­talinu. Hún segir rangt hjá honum að ríkið hafi fengið bankann án endur­gjalds og segir: „Er maðurinn í al­vöru að grínast? Er hann búinn að gleyma því stór­kost­lega tjóni sem hann og hans fólk olli þjóðinni, sem fékk svo bankann sem nokkurs konar ör­bætur upp í það tjón?“

Hún segir Bjarna ekki njóta trausts og eigi að skila lyklunum að fjár­mála­ráðu­neytinu.