Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, fór víða í viðtali við hann í Sprengisandi á Bylgjunni, núna rétt fyrir hádegi. Hann segist ekki hafa komið auga á neitt lögbrot við framkvæmd sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka.
Bjarni hefur sætt gagnrýni síðustu vikur og verið sakaður um að „gefa“ hluta af Íslandsbanka til útvalinna einstaklinga. Hann segir þetta þó ekki standast neina skoðun og segir að ef málið er skoðað af sanngirni þá hafi salan verið stórkostlegur árangur fyrir ríkissjóð. „Við erum að selja bankann á 50 prósent hærra verði en síðast,“ sagði Bjarni.
Páll hafi farið með rangt mál
Bjarni gagnrýndi fjölmiðla fyrir að hafa fjallað um færslu Páls Magnússonar, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, eins og það væri heill sannleikur. Páll skrifaði í færslunni að félagi hans hafi fengið boð um að kaupa í Íslandsbanka og morguninn eftir hafi hann selt bréfin og grætt milljónir.
Bjarni segir þetta ekki vera satt, útboðið hafi farið fram á þriðjudegi og uppgjörsdagur útboðsins hafi ekki verið fyrr en á mánudeginum, nær viku síðar. Hann segir engan geta hafa selt daginn eftir. „En þetta flytjið þið fjölmiðlamennirnir. Það þarf að skoða þetta af sanngirni,“ segir Bjarni. Hann segir það ekki skipta máli að þessi frásögn hafi komið frá samflokksmanni sínum.
Segir ekki margt hafa farið úrskeiðis
Þegar Kristján Kristjánsson, þáttastjórnandi Sprengisands spurði Bjarna af því hvað honum hafði fundist fara úrskeiðis í útboðinu, segir Bjarni það ekki hafa verið margt. Kristján taldi þá upp það sem bent hefur verið á í útboðinu, þá segir Bjarni málin vera til skoðunar af viðeigandi stofnunum.
Bjarni segir ekki vera hægt að skrifa það á pólitíska ábyrgð fjármálaráðherra, ef ákveðnir hlutir hafi farið úrskeiðis.
Hann segir ekki hafa verið þörf á að hann myndi skoða hvern og einn kaupanda, til þess sé Bankasýsla ríkisins. Hann segir hlutlægar reglur passi upp á það að einungis menn sem uppfylla ákveðin skilyrði geti keypt í útboðinu. Það sé á ábyrgð söluaðilans ef aðrir en hæfir fjárfestar hafi keypt í útboðinu.
Segir sótt að sér
Bjarni segir vera sótt að sér í augnablikinu, „Eldarnir brenna næst mér,“ sagði hann. Hann segist þó vera stoltur yfir því hvernig hefur tekist að taka til í ríkisfjármálum, losa okkur úr þeim höftum sem færðu okkur bankann, skrá hann síðan í miðjum heimsfaraldri, fara í útboð og fá fjölbreyttan hóp fjárfesta.
Bjarni segir það ekki trufla sig að nokkur hundruð manns mæti á mótmæli gegn honum, „Það er verk að vinna að útskýra hvað var hér á ferðinni og hvað hefur gerst síðan við tókum yfir bankann“, sagði hann.
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, gagnrýnir Bjarna fyrir svör sem hann gaf í viðtalinu. Hún segir rangt hjá honum að ríkið hafi fengið bankann án endurgjalds og segir: „Er maðurinn í alvöru að grínast? Er hann búinn að gleyma því stórkostlega tjóni sem hann og hans fólk olli þjóðinni, sem fékk svo bankann sem nokkurs konar örbætur upp í það tjón?“
Hún segir Bjarna ekki njóta trausts og eigi að skila lyklunum að fjármálaráðuneytinu.
Bjarni segir líka að við höfum tekið yfir banka "án endurgjalds". Er maðurinn í alvöru að grínast? Er hann búinn að gleyma því stórkostlega tjóni sem hann og hans fólk olli þjóðinni, sem fékk svo bankann sem nokkurs konar örbætur upp í það tjón? Er maðurinn ekki tengdur?
— Helga Vala Helgadóttir 🔴 (@Helgavalan) April 24, 2022