„Nú kemur sannleikurinn loks upp á yfirborðið. Og það má þakka hugrökku fólki sem í örvæntingu sinni stígur fram og segir frá sínum hremmingum,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Þar vísaði hún til Brynju Bjarnadóttur, 65 ára einstæðrar konu og sjúklings, sem tjáði sig um ástand sitt á leigumarkaði í viðtali við Fréttablaðið í vikunni. Þar greindi hún frá því að leigufélagið Alma hefði í lok nóvember tilkynnt henni um 75 þúsund króna hækkun á leiguverði á íbúð hennar við Hverfisgötu.

„Ég var nú búin að sætta mig vita að geta ekki haldið jól vegna peningaleysis en ég bjóst ekki við því að ég færi á götuna líka,“ sagði Brynja.

„Um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum, en málið er því miður ekki einsdæmi,“ sagði Ásthildur um mál Brynju og benti á að leigufélagið Alma hefði hagnast um 12,4 milljarða á síðasta ári. Auk þess greindi hún frá öðru sambærilegu dæmi, þar sem erlend kona hefði fengið 60 þúsund króna hækkun á leigu á 67 fermetra íbúð. Sú leiga mun því  fara upp í 310 þúsund á mánuði.

Áshildur spurði því Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvað honum þætti um ástandið á leigumarkaði og hvort ekki væri kominn tími á neyðarlög til að verja heimilin „gegn þessum gegndarlausu og forhertu hækkunum sem dunið hafa á leigjendum og lántakendum?“

Óforsvaranlegt hvernig komið sé fram við Brynju

Bjarni tók þá til máls og minntist á aðgerðir  ríkisstjórnarinnar í málaflokknum, eins og að verið væri að setja aukna fjármuni í framkvæmdir svo fleiri félagslegar íbúðir gætu risið sem hugsaðar væru fyrir þá sem eru á leigumarkaði.

Jafnframt sagði hann að Brynja myndi fá hærri húsaleigubætur við hækkandi leigu.

Þá tjáði hann sína persónulega skoðun á máli Brynju. „Ég tel að það sé óforsvaranlegt að ganga jafn langt gagnvart fólki og gert hefur verið í þessu tiltekna dæmi.“

„Eru þessir aðilar óstöðvandi?“

„Við skulum ekki láta eins og þetta sé einangrað dæmi,“ svaraði Áshildur.

„Er ekki kominn tími á að koma einhverskonar böndum á leigmarkaðinn?“ spurði hún og minntist á aðgerðir í Skotlandi, Spáni og Danmörku, „Eða eru völd banka og leigufélaga yfir heimilum landsins í nafni græðgi algjör? Eru þessir aðilar óstöðvandi og ná engin lög yfir þessa hegðun?“

Aftur tók Bjarni til máls. „Auðvitað er það ekki þannig að það sé hægt að þola hverskonar framkomu sem er á leigumarkaði. Það er alveg fráleitt að ríkisstjórnin standi fyrir eitthvað slíkt,“ sagði hann.

Hann sagði aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málaflokknum, og minntist þar sérstaklega á þær sem eru í fjárlögum næsta árs, vera hugsaðar fyrir fólk í fólk í lægri tekjuendanum.

„Þetta eru alvöru aðgerðir sem skipta raunverulegu máli fyrir fólk.“ sagði hann.