Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það heimskulega nálgun að reyna að reikna þingsæti út frá könnun þegar það er ekki eitt ár frá kosningum.
Ríkisstjórnin er fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Prósent framkvæmdi fyrir Fréttablaðið. Stjórnarflokkarnir mælast með samanlagt 39,9 prósent og fengju 26 menn kjörna á Alþingi samkvæmt könnuninni en 32 þingmenn þarf til að mynda meirihluta. Ríkisstjórnin myndi missa 12 þingsæti.
„Það hefur gengið á með miklum stormum í þinginu og kannski það endurspeglar það, þessar hreyfingar á fylginu,“ sagði Bjarni í samtali við Fréttavaktina á Hringbraut og Fréttablaðið í dag.
Svarar ekki orðrómi
Aðspurður um orðróm um að hann og Þordís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra muni skipta um embætti svarar hann:
„Ég bregst ekki við einhverjum orðrómi.“
En ætlið þið að skipta um embætti?
„Ég bregst ekki við orðrómi.“
En getur þú svarað mér hvort þið ætlið að gera það?
„Nei.“
Þordís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra segir engar slíkar áætlanir uppi.
Hefur ekki áhyggjur af fylgi
Aðspurður segist Bjarni ekki áhyggjufullur þótt fylgi Sjálfstæðisflokksins sé komið niður í 18 prósent samkvæmt könnuninni. Sjálfur segist Bjarni halda að útkoman hafi áður verið verri.
„Ég held að við höfum séð verri kannanir. Aðalatriðið er að framtíðin býður upp á tækifæri til að sækja fylgi og stuðning,“ segir hann.
Fréttablaðið og Fréttavaktin á Hringbraut ræddu við forystumenn stjórnarandstöðuflokka og formenn stjórnarflokkanna. Hér fyrir neðan má sjá klippu af viðtölunum.