Bjarni Bene­dikts fjár­mála­ráð­herra segir erfiðasta tímann vera að baki í far­aldrinum og sam­fé­lagið í kjör­stöðu til að grípa tæki­færi og vaxa til vel­sældar.

„Það er á­stæða til að fagna fyrir margra hluta sakir,“ segir Bjarni. Búið er að setja þing eftir nokkurn að­draganda og í dag er full­veldis­dagurinn.

„Við leggjum á­herslu á al­þjóð­legt sam­starf og opið frjálst markaðs­hag­kerfi á Ís­landi, allt á grunni full­veldisins,“ segir Bjarni. „Og við viljum, já, vera utan Evrópu­sam­bandsins.“

Bjarni segir ríkis­stjórnina hafa sterkt um­boð og mikið fylgi á þingi, sem verður þeim gott farar­nesti. Hann kallar stjórnina „Stjórn nýrra tæki­færa.“

Faraldurinn undirstrikað mikilvægi einkageirans

Far­aldurinn bar með sér erfið­leika og ó­vissu en minnti á sama tíma á mikil­vægi þess að hafa sterkan einka­geira, sam­kvæmt Bjarna. „Við sáum opnum augum það gerast fyrir framan okkur að ríkis­sjóður féll skyndi­lega í 300 milljarða halla þegar töpuðust tuttugu þúsund störf ein­mitt í einka­geiranum,“ segir Bjarni.

„Og við sögðum að verk­efnið hlýtur að vera það að endur­heimta þessi störf þannig að við getum til lengri tíma risið undir gæða opin­berra þjónustu á Ís­landi,“ segir Bjarni.

Nú er það versta yfir­staðið að sögn Bjarna, á árinu hafa orðið til tuttugu þúsund störf og af­koma ríkis­sjóðs fer snar­batnandi. „Við höfum fundið við­spyrnuna, við gátum veitt fyrir­tækjunum skjól og við höfum þess vegna sterkan grunn til að halda á­fram,“ segir Bjarni.

„Við skulum taka þennan lær­dóm með okkur inn í fram­tíðina. Meðal annars um virði þess fyrir opin­bera geirann að hér sé til staðar kraft­mikil verð­mæta­sköpun í einka­geiranum,“ segir Bjarni.

Ekki lengur fordæmalausir tímar

Bjarni segir þessa tíma ekki lengur vera for­dæma­lausa og bendir meðal annars til þess að þing­menn séu enn með grímur í þing­sal. „Þó við séum enn í viðjum far­aldursins, alla­vega að ein­hverju marki, þá skulum við samt taka eftir því hve staðan er hratt að breytast okkur í vil,“ segir Bjarni.

Hag­kerfið hefur tekið við sér og þátt­taka í bólu­setningu er góð, segir Bjarni. „Þess vegna get ég sagt að erfiðasti tíminn er að baki.“

Þá segir Bjarni að hann geti nú staðið og sagt með full­vissu að við völdum rétta leið og höfum náð frá­bærum árangri með mikilli sam­stöðu. „Á grund­velli sam­stöðu sem skilaði sterkri stöðu eftir eitt erfiðasta efna­hags­á­stand sem við höfum upp­lifað, erum við í kjör­stöðu til að grípa tæki­færi sam­fé­lagsins, vaxa til vel­sældar og upp­haf þing­starfa er fyrsta skrefið á þeirri leið,“ segir Bjarni.