Verðbólgan er helsta áskorun stjórnmála á Íslandi nú um stundir. Varðar miklu að ná henni niður, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem kynnti fjárlagafrumvarp 2023 í morgun.

Bjarni vonast til að verðbólga á Íslandi hafi náð hámarki. Hann telur að aðgerðir sem tryggi hátt atvinnustig og góðar tekjur, ekki síst hjá ungu fólki, muni skipta sköpum.

Afkoma ríkissjóðs er miklu betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Munar þar 100 millljörðum í auknum tekjum. Landsframleiðsla reynist 10 prósentum meiri í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er gríðarlegur viðsnúningur frá covid sem gekk nærri ríkissjóði að sögn Bjarna. Varðar miklu að lækka tap á ríkissjóði sem hraðast, enda vaxtakostnaður einn hæsti útgjaldaliðurinn.

Jákvæður viðsnúningur en einnig viðsjá

Viðsnúningurinn í rekstri ríkissjóðs er einkum að þakka blómstrandi ferðaþjónustu og háu atvinnustigi. Helstu ógnirnar nú eru há verðbólga og vaxtastig auk fyrrgreindra verðhækkana á húsnæðismarkaði. Bjarni viðurkennir að þröskuldur ungs fólks og annarra sem eru í leit að fyrstu fasteign hafi hækkað og gert ungu fólki erfitt fyrir að kaupa húsnæði vegna stökkbreytinga á fasteignaverði undanfarið.

„Með ábyrgri hagstjórn munum við ná verðbólgunni niður,“ segir Bjarni. „Fyrir ungt fólk er ekkert sem hjálpar meira en öflugur atvinnumarkaður sem getur tryggt góðar tekjur.“

Ræddi ekki leigjendur

Bjarni vék ekki að leigjendum í kynningu sinni á fjárlagafrumvarpinu í morgun. Hann nefndi að öryrkjar fengju umtalsverðar uppbætur frá og með áramótum.

Í samtali við Fréttablaðið um hvernig ríkisstjórnin hygðist sérstaklega ætla að hjálpa fólki sem upplifir að hafa enga mörguleika á eignast eigið húsnæði, minnti ráðherrann á sértækar aðgerðir hjá innviðaráðuneytinu gagnvart ungum íbúðarkaupendum, þær yrðu kynntar í haust. Þá hafi ríkið gripið til ýmissa aðgerða svo sem með nýlega samþykktum lögum um séreign sem hjálpi fólki að greiða inn á húsnæðislán.

Hæstu barnabætur hér til efnaminnstu

Bjarni segir um brna- og vaxtabætur sem fjöldi Íslendinga hefur misst síðustu ár og mörg heimili munaði verulega um á árum áður, að vaxtabótakerfið hafi fjarað út. Annars konar ívilnun hafi komið í staðinn. Hvað barnabæturnar varði hafi ríkisstjórnin ákveðið að ívilna þeim sérstaklega sem hafi lægstu tekjurnar. Bjarni staðhæfði að nú væru greiddar út hærri barnabætur til efnaminni en á Norðurlöndum. Þar fá allir sem eignast börn einhverjar barnabætur, óháð tekjum. Nokkuð er síðan það kerfi var afnumið hér.

Auknar álögur á umhverfisvæna

Bjarni boðar auknar álögur á eigendur umhverfisvænna bíla. Hann bendir á að rekstrakostnaður rafmagnsbíls og bensínsbíls sé ólíkur, umhverfisvænum bíl í hag. Bjarni segir að það hjálpi mjög í rimmunni við verðbólguna, höfuðverkefni ríkisstjórnarinnar, að orka hafi ekki hækkað hér á landi líkt og í flestum nágrannalandanna.