Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, í byrjun þingfundar í dag, hvort hann vissi til þess að eitthvað lægi fyrir sem hefði getað gefið Gunnari Braga Sveinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, væntingar um sendiherrastöðu í framtíðinni.

Bjarni sagði að stutta svarið við spurningunni væri einfaldlega „nei.“ Almenna svarið væri bara að háttvirtur þingmaður er fyrrverandi utanríkisráðherra og að margir slíkir hafi endað „einhvers staðar í utanríkisþjónustunni.“

Ekkert hafi komið fram á fundum hans með Gunnari Braga sem hefði gefið Gunnari Braga sérstakt tilefni til þess að ætla að hann gæti talið sig eiga sendiherrastöðu vísa en „hann hefur kannski einhverjar væntingar á grundvelli reynslu sinnar um slíkt í framtíðinni.“