Hvorki lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Páley Borgþórsdóttir, né Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vilja bregðast við gagnrýni sem fram kom á störf þeirra í Fréttavaktinni á Hringbraut síðastliðinn föstudag.

Helgi Seljan og Þóra Arnórsdóttir blaðamenn báru yfirvöld þungum sökum í þættinum. Bar þátt Bjarna og Páleyjar sem yfirmanns lögreglunnar, í svokölluðu skæruliðamáli Samherja, ítrekað á góma. Bentu blaðamennirnir á að ummæli saksóknara á Akureyri um að blaðamenn myndu ekki komast upp með að fara í síma annarra hefðu reynst byggð á sandi.

Fram kom að lögreglan hefði ítrekað hallað réttu máli við rannsóknina. Kom fram í máli beggja blaðamannanna að lögregluyfirvöld nyrðra gegndu því hlutverki að draga taum Samherja sem voldugs fyrirtækis.

Var sérstaklega gagnrýnt að formaður stærsta flokks Íslands hjólaði í einstaka blaðamenn á Facebook vegna Samherjamála á sama tíma og ráðamenn þegðu þunnu hljóði vegna ofbeldis og rangfærslna, sem lykilvitnið í Namibíumálinu, Jóhannes Stefánsson, hefði verið beitt til að skaða trúverðugleika vitnisins. Þóra og Helgi nefndu fjölmörg dæmi um íhlutun Samherja til að fæla blaðamenn frá því að fjalla um mál. Þóra sagði að vinnubrögð Samherja bæru ekki með sér snefil af siðferðiskennd.

Fréttablaðið hefur ítrekað leitað viðbragða hjá Bjarna og Borgeyju vegna gagnrýninnar, án árangurs.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri
Stjórnarráðið