Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að snúin staða sé komin upp í borginni eftir niðurstöður kosninganna í gær en þær séu þó skýrt ákall um breytingar.
Aðspurður hvernig hann sjái fyrir sér að hægt verði að mynda meirihluta í borginni segir hann:
„Við verðum að sjá til. Þetta er dálítið snúin staða, sérstaklega eftir að borgarfulltrúunum var fjölgað svona mikið. Átta flokkar sýnist mér sem eru komnir með borgarfulltrúa og þar finnst mér að það ætti að vera leiðandi hugsun að meirihlutasamstarfið féll. Það féll aftur, það féll líka síðast undir forystu Samfylkingarinnar þannig að það er mjög skýrt ákall um breytingar. Mér finnst það skipta máli og eigi að vera svona leiðandi hugsun að gera þessar breytingar og svara þessu ákalli kjósenda í borginni.“
Bjarni segist vera þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að vera í nýjum meirihluta í borginni.
„Já, mér finnst það. Hann vinnur þessar kosningar í fjölda atkvæða og þó að við Sjálfstæðismenn hefðum gjarnan viljað sjá meiri stuðning, þá er það alveg skýrt að það er enginn flokkur sem fær meira fylgi og og við förum langt fram úr könnunum, meðal annars könnun sem þú barst undir mig ekki fyrir löngu síðan. Þar sem því var haldið fram að flokkurinn yrði þriðji stærsti flokkurinn í borginni og minni en Píratar sem eru ekki helmingurinn af Sjálfstæðisflokknum.“
Bjarni kveðst ánægður með frammistöðu Hildar Björnsdóttur, oddvita flokksins, í kosningabaráttunni. Nú fái hún fjögur ár til að sanna sig sem oddviti flokksins.
„Hún nær þarna góðum endaspretti og mér fannst hún standa sig frábærlega í forystuþættinum á Ríkisútvarpinu og nær að snúa stöðunni við og sækja fram á síðustu stundu og fara fram úr öllum könnunum. Það er bara góður árangur hjá henni, en hún er nýr oddviti og nú er allt kjörtímabilið fram undan fyrir hana til að sanna sig sem oddvita fyrir flokkinn.“
Bjarni segir að þegar heildarniðurstaðan er skoðuð þá sé Sjálfstæðisflokkurinn ekki að tapa nema sex bæjarfulltrúum og endar með 110 fulltrúa. Bendir hann á að það er fjórum sinnum meira en til dæmis Samfylkingin getur státað sig af. Hann segir að niðurstaðan í Mosfellsbæ og í Hveragerði hafi komið honum mest á óvart og þá hafi það verið vonbrigði hversu litlu munaði í Rangárþingi ytra og Reykjanesbæ að flokkurinn næði viðbótarfulltrúa. Hann gleðst yfir niðurstöðunni í Ölfusi og Árborg, þá bæti flokkurinn við sig á Seltjarnarnesi og sé með 7 af 11 bæjarfulltrúum í Garðabæ.
„Auðvitað er það alltaf þannig, sérstaklega þegar maður skoðar þetta í sögulegu ljósi, að þá hefðum við viljað hafa meira en þetta er staða sem við verðum að vera ánægð með,“ sagði Bjarni í viðtali við Fréttablaðið nú skömmu fyrir hádegi.