„Þetta hefur verið erfitt mál fyrir Bjarna. Hann hefur laskast aðeins á þessu máli, alla vega til skamms tíma. En hvort þetta muni hafa langvarandi bein áhrif, það er ég ekki viss um,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.

Krafa minnihlutans um óháða rannsóknarnefnd virðist andvana fædd, því ólíklegt er að einhver úr meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar muni snúast á sveif með minnihlutanum, eins og þyrfti til.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, lýsti í Fréttablaðinu miklum vonbrigðum með að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði varið Bjarna eftir útgáfu skýrslunnar. Katrín hefði kastað prinsippum og ákalli um traust „út um gluggann“.

Um þetta segir Eiríkur:

„Ég held að Katrín gæti vel klárað þetta kjörtímabil með ágætum sóma, en samstarfið verður stöðugt erfiðara fyrir hana, því í ríkisstjórninni eru mjög ólíkir flokkar með ólíka stefnu þar sem hún verður að standa með samstarfinu fremur en prinsipp-afstöðu flokksins í sumum málum.“

Eiríkur segir að togstreita sé innbyggð í samstarf ólíkra flokka í ríkisstjórninni. Sú togstreita komi betur fram eftir því sem á líður.