Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kemur líklega aftur til vinnu í vikunni. Hann er í fríi en aðstoðarmaður hans, Páll Ásgeir Guðmundsson, gat ekki sagt hvenær hann fór í frí og mundi ekki nákvæmlega hvenær hann kemur aftur, en segir það vera í þessar viku.
Páll gat ekki staðfest hvort Bjarni væri erlendis í fríi eða á Íslandi en forseti Alþingis upplýsti á þingfundi að Bjarni er erlendis, en stjórnarandstaðan furðar sig á fjarveru hans.
Þing kom saman í dag í fyrsta sinn á nýju ári og helsta mál á dagskrá þingfundar er frumvarp fjármálaráðherra, sem lagt var fram fyrir helgi, utan þingfundar. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, hefur leyst Bjarna af á meðan hann er í fríi og mælir fyrir frumvarpinu í dag.
Bjarni smitaðist af Covid-19 í desember og sagði þann 5. janúar í viðtali við Bítið á Bylgjunni að hann væri við ágæta heilsu og hitalaus.
Hiti í þingmönnum vegna fjarveru Bjarna
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýna harðlega fjarveru ráðherrans á þingfundi sem stendur núna yfir, sérstaklega í ljósi umræðna um lagafrumvarp fjármálaráðherrans og sóttvarnamál.
„Telur hann Alþingi Íslendinga vera það ómerkilegan stað að hann þurfi ekki að mæta hingað?“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkinginnar.
„Ef fjármálaráðherra er í fríi þá er það móðgun,“ sagði Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata.