Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki áhyggjur af ágreiningi milli frambjóðenda til efstu sæta flokksins. „Þvert á móti þá finn ég fyrir gríðarlega miklum styrk í þessu fjölmenna prófkjöri sem við erum að halda,“ sagði Bjarni að loknum ríkisstjórnarfundi nú í morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði fram kæru í gær á hendur flokkssystur sinni Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra fyrir að brjóta reglur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Bæði gefa kost á sér í 1. sæti í prófkjörinu sem hefst í dag.
Yfirkjörstjórnin taldi að athugasemdirnar ættu ekki við rök að styðjast og að ekki hafi verið brotið gegn prófkjörsreglum.
Bjarni segir það mikið gleðiefni hversu mikil þátttaka sé í prófkjörinu í Reykjavík og væntir þess að þúsundir manna muni taka þátt í því að setja saman framboðslistann. „Það getur aldrei verið á endanum annað en mikill lýðræðislegur styrkur í því fyrir flokkinn.“
Hefur þú áhyggjur af því að það muni ekki gróa um heilt?
„Ég hef ekki áhyggjur af því. Við skulum ekkert fara í grafgötur með það að átök á pólitíska sviðinu geta stundum dregið dilk á eftir sér. Ég hef ekki áhyggjur af því í þessu tilfelli. Ég þekki þá sem eru að bítast um sæti á listanum og treysti þeim vel til að halda áfram að vinna í þeim vanda eins og hefur verið gert hingað til.“