Ekki hefur verið rætt um meintan ritstuld Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, í ríkisstjórninni.
Fréttablaðið spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um málið eftir ríkisstjórnarfund í morgun og sagði hún málefni seðlabankastjóra ekki hafa komið til umræðu á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Málið sé til umfjöllunar í siðaefndinni og best að hún ljúki sinni vinnu.
Sem kunnugt er hefur siðanefnd Háskóla Íslands til meðferðar kvörtun frá Bergsveini Birgissyni, rithöfundi og fræðimanni, vegna meints ritstuldar Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, í nýútgefinni bók hans sem ber nafnið Eyjan hans Ingólfs.
Að mati Bergsveins eru kenningar um landnám Íslands í bók Ásgeirs byggðar á hans eigin rannsóknum en á þeim hafi hann byggt í bók sinni Leitin að svarta víkingnum.
Þá hefur sagnfræðingurinn Árni H. Kristjánsson einnig sakað Ásgeir um ritstuld við ritun Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Ásgeir var einn af höfundum skýrslunnar sem kom út á vegum Alþingis 2014.
„Ég hef ekki áhuga á að setja mig inn í þetta í smáatriðum ef ég á að segja alveg eins og er.“
Fréttablaðið ræddi málið við forsætisráðherra og fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu. Aðspurður segist Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ekki hafa rætt þessi mál við seðlabankastjóra.
„Nei, ég ætla ekki að skipta mér af þessu,“ segir hann.
Bjarni segist ekki hafa áhyggjur af því að málið muni hafi áhrif á efnahagslífið. Hann virðist ekki hafa áhuga á málinu yfir höfuð.
„Ég hef ekki áhuga á að setja mig inn í þetta í smáatriðum ef ég á að segja alveg eins og er.“