Bjarni Halldór Janusson, stjórnmálafræðingur, hefur tekið til starfa sem nýr aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns og formanns Viðreisnar. Frá því er greint í tilkynningu en María Rut Kristinsdóttir hætti sem aðstoðarkona hennar til að taka við starfi kynningarstýru hjá Un Women.

„Það eru ákveðin forréttindi að geta starfað við það sem ég hef ástríðu fyrir. Ég hlakka til komandi tíma og þó að starfið sé krefjandi er það ekki vandamál þegar áhuginn mun nýtast mér sem góður drifkraftur,“ segir Bjarni í tilkynningu.

Þar kemur enn fremur fram að Bjarni hefur tekið þátt í starfi Viðreisnar frá árinu 2014 og var meðal fyrstu stofnenda flokksins og fyrsti forseti ungliðahreyfingarinnar. Bjarni var kjörin varaþingmaður flokksins í í suðvesturkjördæmi árið 2016 og tók sæti á þingi í tvígang árið 2017 og varð þá yngsti sitjandi þingmaður frá upphafi. Á meðan þingsetu sinni stóð lagði Bjarni fram þingsályktunartillögu um sálfræðiþjónustu í opinberum háskólum.

Bjarni er með háskólagráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, diplómu á meistarastigi til kennsluréttinda frá sama skóla og lauk meistaranámi í stjórnmálaheimspeki frá Háskólanum í York í Bretlandi. Bjarni starfaði áður í byggingariðnaði sem fjármála- og skrifstofustjóri hjá pípulagnaverktaka og einnig við borgaralega fermingarfræðslu í aukaverkum.