„Það eru engar nýjar fréttir af málinu,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun þegar hann var spurður hvort hann hefði rætt við Guðlaug Þór Þórðarson um mögulegt mótframboð Guðlaugs til formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins um aðra helgi.
Bjarni ítrekaði það sem hann hefur áður sagt að hann hafi aldrei litið svo á að formaður eigi að fá umboð sitt endurnýjað sjálfkrafa.
„Þannig að mér finnst mjög eðlilegt að nálgast málin alltaf þannig að það þurfi raunverulega að endurnýja umboðið,“ sagði Bjarni.
„Eins og ég hef sagt þá horfir það með dálítið sérstökum hætti við mér, þegar við erum komin svona skammt á veg á kjörtímabilinu, að skipta um forystu í Sjálfstæðisflokknum. Við skulum bara sjá, það er ekki komið fram framboð formlega,“ sagði Bjarni sem sagði þó eitt vera ljóst eftir tíðindi síðustu daga: „Það er mikið líf í flokknum.“
Aðspurður hvort hann hefði fundið fyrir miklum stuðningi eftir að orðrómurinn um mótframboð Guðlaugs Þórs fór af stað sagði Bjarni:
„Alveg ótvírætt finn ég fyrir því. Ég myndi ekki gefa kost á mér nema ég fyndi fyrir því og tryði því að ég hefði stuðning til að halda áfram.“
