„Það eru engar nýjar fréttir af málinu,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, að loknum ríkis­stjórnar­fundi í morgun þegar hann var spurður hvort hann hefði rætt við Guð­laug Þór Þórðar­son um mögu­legt mót­fram­boð Guð­laugs til formanns Sjálf­stæðis­flokksins á lands­fundi flokksins um aðra helgi.

Bjarni í­trekaði það sem hann hefur áður sagt að hann hafi aldrei litið svo á að for­maður eigi að fá um­boð sitt endur­nýjað sjálf­krafa.

„Þannig að mér finnst mjög eðli­legt að nálgast málin alltaf þannig að það þurfi raun­veru­lega að endur­nýja um­boðið,“ sagði Bjarni.

„Eins og ég hef sagt þá horfir það með dá­lítið sér­stökum hætti við mér, þegar við erum komin svona skammt á veg á kjör­tíma­bilinu, að skipta um for­ystu í Sjálf­stæðis­flokknum. Við skulum bara sjá, það er ekki komið fram fram­boð form­lega,“ sagði Bjarni sem sagði þó eitt vera ljóst eftir tíðindi síðustu daga: „Það er mikið líf í flokknum.“

Að­spurður hvort hann hefði fundið fyrir miklum stuðningi eftir að orð­rómurinn um mót­fram­boð Guð­laugs Þórs fór af stað sagði Bjarni:

„Alveg ó­tví­rætt finn ég fyrir því. Ég myndi ekki gefa kost á mér nema ég fyndi fyrir því og tryði því að ég hefði stuðning til að halda á­fram.“

Það var létt yfir Guðlaugi Þór sem þó vildi ekki tjá sig þegar Fréttablaðið leitaði eftir því.
Mynd/Anton Brink