Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir engar nýjar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi hvenær og hvort verði skipt um dómsmálaráðherra.
„Ég gerði grein fyrir því þegar ég skipaði mína ráðherra á sínum tíma,“ sagði Bjarni að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Þegar ríkisstjórnin var kynnt til leiks í nóvember í fyrra var greint frá því að Jón Gunnarsson yrði dómsmálaráðherra en að Guðrún Hafsteinsdóttir myndi taka við af Jóni eftir að hámarki átján mánuðum liðnum. Síðan eru liðnir ellefu mánuðir.
Ekki er enn komin dagsetning á það hvenær skiptin verða en í samtali við Fréttablaðið í september sagði Guðrún að það yrði á næstu mánuðum.
„Ég mun taka við embætti dómsmálaráðherra innan nokkurra mánaða. Hvort það verði um áramótin eða á útmánuðum er í höndum formanns flokksins,“ sagði Guðrún.