Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur sig ekki hafa brotið sóttvarnalög þegar hann mætti í samkvæmi sem lögreglan leysti upp.

Ráðherrann sagði í Kastljósi í kvöld að hann væri ekki sammála framburði konu sem hringdi á lögregluna sem sýnir fram á að Bjarni hafi verið í Ásmundarsal ásamt konu sinni í minnst 40 mínútur. Sagðist hann upplifa það að hann hafi verið á svæðinu í um korter.

„Ég brýt ekki sóttvarnalög með því að mæta á sölusýningu á Þorláksmessu,“ sagði Bjarni sem líkti samkvæminu við verslun og sýningu, þar sem listaverk hafi verið til sölu.

Fjölmargir hafa í kjölfar fregnanna krafist afsagnar Bjarna. Aðspurður tók Bjarni undir með þáttastjórnanda Kastljóss að enginn væri í sjálfu sér ómissandi en að hann ætlaði sér ekki að segja af sér. Hann hafi lofað flokksmönnum sínum og landsmönnum öllum að berjast fyrir baráttumál þeirra í blíðu og stríðu.

„Ég stend ekki upp og geng frá borði þó að það sé erfitt tímabundið,“ sagði hann og bætti við að hann teldi lykilinn að því að endast í stjórnmálum væri að láta ekki velta sér um koll í mótvindi.

Ósammála lögreglunni

Bjarna var nokkuð tíðrætt um dagbókarfærslu lögreglunnar í viðtalinu, en upplýst var í færslunni að morgni aðfangadags að ráðherra í ríkisstjórninni hafi verið viðstaddur samkvæmi á Þorláksmessukvöld. Dagbókarfærslan sem send var fjölmiðlum, er nú til athugunar hjá lögreglunni en í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að það beri að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók þegar samantektir úr henni eru sendar hverju sinni. Það hafi farist fyrir á aðfangadag en verði á þessu misbrestur sé það ávallt skoðað til hlítar.

Bjarni vitnaði í eigendur Ásmundarsalar, sem fullyrtu í dag að hvorki reglur um fjöldatakmarkanir hafi ekki verið brotnar né reglur um opnunartíma.

Lögreglan tekur ekki undir þessi sjónarmið sem sögðu í tilkynningu sinni á aðfangadagsmorgun:

Veitingarekstur er í salnum í flokki II og ætti því að vera lokaður á þessum tíma. Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt. Lögreglumenn sáu aðeins 3 sprittbrúsa í salnum.“

Ásmundarsalur.

„Gríðarleg samstaða“

Bjarni er annar ráðherrann úr Sjálfstæðisflokknum sem hefur beðist afsökunar fyrir að virða ekki sóttvarnatakmarkanir. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, komst í fréttir í lok sumars þegar hún sást á vinkonuhittingi þar sem tveggja metra reglan var hunsuð ítrekað.

Sig­ríður Á. And­er­sen og Brynj­ar Ní­els­son, þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins, standa að baki hópn­um Út úr kóf­inu sem gagn­rýn­ir aðgerðir stjórn­valda og leit­ar annarra lausna.

Þáttastjórnandi spurði Bjarna hvort hann gæti litið til baka og sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með landsmönnum í baráttunni. Bjarni sagðist vilja árétta að hann tæki ekki undir með viðhorfum Sigríðar og Brynjars en taldi hættulegt ef andstæð sjónarmið gætu ekki komið fram í samfélaginu.

„Ég ætla að halda því fram að það hafi verið gríðarleg samstaða á Íslandi um sóttvarnaaðgerðir og árangur í samræmi við það hlutverk Sjálfstæðisflokksins í þessari orðræðu og það hefur verið hundrað prósent samstaða í ríkisstjórninni um aðgerðir. Ég hef hvergi andmælt þeim tillögum sem heilbrigðisráðherra hefur lagt til á grundvelli tillagna sóttvarnalæknis.“