Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fór þess í dag á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin geri úttekt á því hvort sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka 22. mars sl. hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.
„Samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga hefur ríkisendurskoðandi m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd samninga sem eru gerðir við einkaaðila og hafa eftirlit með starfsemi og árangri ríkisaðila. Lögin kveða á um að ríkisendurskoðandi ákveði sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögunum,“ segir í bréfi Bjarna til Ríkisendurskoðun.
„Þann 22. mars sl. fór fram útboð og sala á 22,5% hlut í Íslandsbanka. Umræða hefur skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar. Þess er hér með farið á leit við Ríkisendurskoðun að hún kanni og leggi mat á hvort framangreind sala hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum,“ segir þar enn fremur.
Bréf ráðherra til Ríkisendurskoðun má finna hér.