Sigmar Vilhjálmsson, veitingamaður, fór hörðum orðum um stjórnvöld og efnahagsaðgerðir þeirra vegna COVID-19 í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Það eru fullt af öðrum málum sem hafa bara einhvernveginn verið á hold, vegna þess að menn hafa varpað allri ábyrgð á þríeykið,“ segir Sigmar í þættinum. Þar fara hann og Ólafur Hauksson, almannatengill, yfir fréttir vikunnar.
Ólafur segir Sigmar ekki mega gleyma því að ríkisstjórnin hafi boðið atvinnulífi á landinu tugi styrkja. Sigmar segir aðgerðirnar ekki bíta. Hann bendir á að 80 prósent fyrirtækja séu lítil eða millistór.
„Aðgerðirnar sem lagðar hafa verið fram eru aðgerðir ennþá frá fyrsta degi faraldurs. Og þær eru ekki að bíta. Þær eru ekki að virka. Og þess vegna erum við að sjá þetta aukna atvinnuleysi og hreinlega kreppa að á mjög mörgum stöðum í efnahagslífinu.“
Aðspurður að því hvað vanti, segir Sigmar að fyrstu aðgerðir stjórnvalda hafi miðast að því að fresta opinberum gjöldum. Það hafi komið sér vel á þriggja mánaða tímabili, en síðan þá hafi sóttvarnaraðgerðir verið hertar og ekkert komið nýtt á móti.
„Því það sem gerist í rekstri er það að þú ert með eitthvað tímabil sem þú selur eitthvað, síðan borgar þú virðisaukaskatt þremur, tveimur mánuðum seinna,“ segir Sigmar. „Á tímabilinu þar sem þú selur mikið og átt eftir að skila ríkinu þínum stóru opinberum gjöldum að þá er með tveggja daga fyrirvara skrúfað á til dæmis bara aðsókn á staðina þína,“ segir hann.
Spurningamerki hvort að einkaaðilar borgi fyrir sóttvarnarlög
Atvinnurekendur geti ekki gert ráðstafanir í rekstri á tveggja daga fyrirvara. Tekjufallið sé gríðarlegt og á sama tíma komi hið opinbera og innheimti opinber gjöld. Sigmar segist sakna þess að sjá ráðherra efnahagsmála á opinberum blaðamannafundum.
„Það sem ég hef saknað, á öllum fjölmiðlafundum, höfum við séð heilbrigðisráðherra, þeir eru nú reyndar ekki rosalega margir þar sem stjórnmálamenn hafa komið fram, en það hefur verið heilbrigðisráðherra, forsætisráðherra, við höfum séð dómsmálaráðherra sem fulltrúa framkvæmdavaldsins og svo menntamálaráðherra,“ segir hann.
„Efnahagsmálaráðherra hefur ekki sést. Menn verða líka að þola gagnrýni, menn geta staðið sig vel á einu sviði en menn þurfa líka að þola gagnrýni. Bjarni Ben hefur ekki sést.“
Sigmar segist aðspurður ekki kæra sig um frekari styrki. „Ég kæri mig hinsvegar um að það sé liðkað til. Því það er stórt lagalegt spurningamerki hvort þú getir sett á sóttvarnarlög og ætlast til þess að einkaaðili borgi fyrir framkvæmdina,“ segir hann.
„Því að við einkaaðilar sem erum að reka fyrirtæki og erum svo sannarlega að fylgja því, enda erum við samfélagslega ábyrg og tökum á okkur takmarkaðan rekstrargrundvöll. Eiga þeir að borga framkvæmd almannavarna og sóttvarna? Því það er það sem er að gerast í dag.“