Bjarni Benediktsson sigraði formannskjör Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag. Hann heldur því áfram formennsku sinni sem hann hefur haldið síðan 2009. Hann sigraði þar með mótframbjóðanda sinn Guðlaug Þór Þórðarson, orkumálaráðherra .

Bjarni fékk 1.010 atkvæði eða rúm 59% greiddra atkvæða, en Guðlaugur Þór 687 atkvæði.

Fyrstu viðbrögð Bjarna er blaðamaður ræddi við hann voru að hans sögn stolt og þakklæti.

„Ég er fyrst og fremst stoltur og þakklátur. Ég er þakklátur að fá að halda þess starfi áfram sem mér þykir bæði mikilvægt og hefur veitt mér mikla ánægju. Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef fengið að gera um ævina. Á þessum tímapunkti finnst mér ég líka vera í miðju verki og við viljum viðhalda þeirri uppbyggingu sem er hafin og klára það verk. Ná aftur stöðugleika og undirbúa næstu kosningar,“ sagði Bjarni eftir kosninguna en aðspurður segist hann að auðvitað muni núverandi stjórnarsamstarf halda áfram.

Bjarni hlaut nokkuð afgerandi kosningu með 59 prósent atkvæða.
Fréttablaðið/EyþórÁrnason

Aðspurður um þann mun sem var í kjörinu sagðist Bjarni að hann hefði fundið fyrir góðum stuðningi og því verið mjög viss um úrslitin. „Mér leið þannig að við værum góðan meirihluta allan tímann“, sagði Bjarni.

Um það hvort einhverjir eftirmálar verði eftir harða kosningabaráttu sagði Bjarni svo ekki vera og segir hana alls ekki vera nein skilaboð um það að framtíð Guðlaugs sem ráðherra væri í hættu

„Nei ég tel ekki að þessi kosning feli nein slík skilaboð í sér,“ sagði Bjarni.

Guðlaugur Þór óskaði andstæðingi sínum til hamingju með sigurinn.
Fréttablaðið/EyþórÁrnason

Ánægður með sýndan stuðning

Guðlaugur Þór var væntanlega vonsvikinn eftir úrslitin en hann óskaði þó Bjarna til hamingju

„Eins og ég segi þá óska ég Bjarna Benediktssyni til hamingju með kjörið. En að sama skapi þá er ég mjög ánægður með þann mikla stuðning sem ég hef fengið,“ sagði Guðlaugur en hann var mjög ánægður með þann fjölda atkvæða sem hann hlaut í kosningunni.

Guðlaugur Þór var sáttur með sín 687 atkvæði enda í mótframboði gegn sitjandi formanni.
Fréttablaðið/EyþórÁrnason

„Að ná svona stuðningi þegar maður bíður fram gegn sitjandi formanni, það eru mjög skýr skilaboð sem ég afar þakklátur fyrir. Þessi stuðningur birtist í þessum tölum. Ég hef samt lagt áherslu á það að við getum gert betur. Við eigum að hugsa stærra og gera hvað við getum til að endurheimta fyrri styrk og ég tel að við getum gert það,“ sagði Guðlaugur.

Um það hvort niðurstöður kosningunnar hefðu fengið hann til íhuga stöðu sína hjá Sjálfstæðisflokknum sagði hann ekki svo vera. „Það væri mjög skrýtið eftir að fá þennan stuðning. Ég mæti í vinnuna á morgun og held áfram að vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar,“ sagði Guðlaugur Þór