Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, vill setja upp kross í Reynisfjöru til minningar um fólkið sem hefur látist þar á síðustu árum.

Hugmyndin um að setja upp kross eða minnisvarða um hina látnu í fjörunni sem víti til varnaðar fyrir gesti hefur borið á góma að undanförnu eftir að karlmaður á áttræðisaldri fór í sjóinn og drukknaði. Bjarnheiður segir að hægt væri að koma fyrir krossi við fjöruna strax ef vilji er fyrir hendi. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir hún ekki koma til greina að loka fjörunni eins og sumir, þar á meðal Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hafa talað fyrir.

„Svo virðist sem erfitt sé að komast að niðurstöðu um það hvort og þá til hvaða ráðatafana skuli grípa til að auka öryggi ferðamanna á ströndinni,“ skrifar Bjarnheiður. „Í hvert skipti sem slys verður, þá fer mikil umræða í gang, þar sem skoðanir eru mjög skiptar og sveiflast frá því að loka eigi fjörunni til þess að nóg sé að gert nú þegar. Eftir nokkra daga lognast umræðan útaf, sofnar í nefndum, ráðum og almennu skrifræði og engin niðurstaða fæst.“

„Ég hef lengi talað fyrir því að grípa til aðgerða sem tala inn í tilfinningar fólks, með því að setja upp kross við fjöruna með ártali fyrir hvert fórnarlamb sem látið hefur lífið í fjörunni. Einfalt og áhrifaríkt - hægt að gera strax ef vilji er fyrir hendi.“