Óli Halldórsson, sem sigraði með nokkrum yfirburðum í forvali Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, greindi frá því á Facebook að alvarleg veikindi hafi komið upp hjá konu sinni. Því hefur hann dregið sig í hlé. Hann hafði betur gegn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformanni VG, í baráttunni um oddvitasætið sem Steingrímur J. Sigfússon hefur vermt í áraraðir.
„Ég hef af persónulegum ástæðum ákveðið að víkja frá áformum um að leiða framboð VG í Norðausturkjördæmi til Alþingiskosninga komandi haust. Alvarleg veikindi hafa komið upp hjá eiginkonu minni, sem haft hafa í för með sér ófyrirséðar áskoranir,“ skrifar Óli.
„Ég tek því umboði sem mér var veitt í forvali VG af mikilli auðmýkt og virðingu en óska vinsamlegast eftir því að mínum aðstæðum verði sýndur skilningur. Með bjartsýni á batnandi heilsu og jafnvægi fjölskyldu minnar með tímanum mun ég vonandi hafa aðstæður til vaxandi þátttöku fyrir VG á ný,“ segir hann.
Stjórn kjördæmaráðs flokksins hefur gert tillögu um breytingu á röðun í þrjú efstu sæti lista VG í kjördæminu og er hann nú svohljóðandi:
- Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
- Jódís Skúladóttir
- Óli Halldórsson
Tillagan verður lögð fyrir á fundi ráðsins eftir helgi.