„Þetta bara bjargar jólunum,“ segir Ragnheiður Soffía Georgsdóttir, sem vann 50 þúsund króna gjafakort í Bónus í Facebook-leik Fréttablaðsins. Hátt í tvö þúsund manns tóku þátt í leiknum og dregið var úr þátttakendum síðastliðinn fimmtudag.

„Ég er einstæð með tvö börn og öryrki, og þess vegna mun þetta nýtast okkur einstaklega vel,“ segir hún. Ragnheiður segist verja jólunum með fjölskyldunni á heimili systur sinnar en mun sjálf bjóða heim á áramótunum.

„Ég er búinn að panta partíkjöt í matinn,“ segir Gabríel Erik, sonur Ragnheiðar, en þau mæðgin litu við á skrifstofu Fréttablaðsins við Kalkofnsveg síðdegis í gær til þess að vitja vinningsins. „Hann á við hamborgarhrygg. Við köllum það partíkjöt því þessi matur er bara í boði í veislum,“ segir Ragnheiður hlæjandi.

Gabríel fagnar átta ára afmæli sínu í dag og þau mæðgin undirstrika hversu vel gjafakortið mun koma sér, bæði fyrir afmælið og hátíðirnar.