Friðheimahjónin Knútur Rafn Ármann, búfræðingur frá Hólum, og Helena Hermundardóttir, garðyrkjufræðingur frá Reykjum, settu ferðamennskuhlutann aðeins til hliðar og byggðu fimm þúsund fermetra gróðurhús þar sem tómatar eru ræktaðir. Í Friðheimum snýst jú allt um tómata. Þeim tókst þannig að halda sínu kjarnastarfsfólki á launum og þurfti ekki að segja neinum upp. Það er þó ávallt opið í Friðheimum og hefur verið.

„Við fórum í það þegar óveðursskýin voru að hrannast upp í kringum COVID síðasta vor. Það hefur verið skortur á íslenskum tómötum í svolítinn tíma og við höfum haft þann draum að koma með meira magn á markaðinn en höfum verið upptekin af því að byggja upp ferðaþjónustuhlutann í fyrirtækinu. Þegar COVID bankaði á dyrnar sáum við fljótt að þetta ár yrði ansi rólegt í ferðaþjónustunni þannig að það var ákveðið að reyna að nýta það til að stækka garðyrkjustöðina,“ segir Knútur.

Fyrst var farið að byggja og nú tínir og pakkar starfsfólkið tómötunum af jafn mikilli ástríðu og það gerði þegar það þjónaði til borðs og tók á móti gestum. „Þegar ferðamenn koma til baka þá getum við fært þau í sín upprunalegu störf. Þetta var okkar leið að komast í gegnum þetta tímabil. Með nýju húsunum erum við að að tvöfalda ræktunina miðað við það sem við höfðum áður.“ Sem fyrr verður gamli góði tómaturinn ræktaður en einnig Piccolo og plómutómatar.

Knútur var ekki sá eini í Reykholti sem fór í stækkun en mögnuð uppbygging hefur átt sér stað í þorpinu síðan COVID bankaði upp á. „Það er búið að vera stórt ár hér í Reykholti. Við vorum þrír garðyrkjubændur sem stækkuðum hjá okkur gróðurhúsin og ég held að það hafi verið byggðir um níu þúsund fermetrar af gróðurhúsum. Þar að auki var sett af stað uppbygging á 40 herbergja hóteli í þorpinu sem verður tilbúið í júlí.“

Hann segir að mesta kúnstin hafi verið að taka það jákvæða út úr ástandinu og nýta tímann til góðs. „Þegar hlutirnir fara svo af stað aftur þá erum við sterkari, búin að betrumbæta, byggja upp og endurmennta starfsfólkið. Þetta er snúið árferði þegar tekjurnar detta svona mikið niður. Sérstaklega þegar þetta er orðinn svona langur tími, mun lengri en búist var við í byrjun.“

Hann segir að það verði áhugavert að fylgjast með ferðamennskunni, hvort hún muni eitthvað breytast þegar heimurinn fer að snúast á ný. „Mun fólk breyta ferðavenjum sínum og mun það til dæmis ferðast lengur og undirbúa þær ferðir sem það fer í lengra fram í tímann og jafnvel betur? Gæði og öryggi tel ég muni skipta miklu máli svona fyrst um sinn allavega og þar stöndum við Íslendingar framarlega. Ísland sem áfangastaður verður mjög áhugaverður staður á heimsvísu því við stöndum mjög framarlega í þessum málum.“

Hann vonast til að flest innlend ferðaþjónustufyrirtæki standi af sér storminn og nái vopnum sínum á ný. „Ég hef mikla trú á íslenskri ferðaþjónustu. Það skiptir okkur miklu máli að sem flest fyrirtæki komist út úr þessu ástandi þannig að við höldum okkar innviðum í ferðaþjónustunni. Það eru búnir að vera byggðir upp og gerðir alveg ótrúlega flottir hlutir í ferðaþjónustu á síðustu árum sem að Íslendingar upplifðu og sáu þegar þeir voru duglegir að ferðast innanlands síðasta sumar. Hvað sé hægt að gera og hvað er margt skemmtilegt komið hér á landi.“