Litlu mátti muna í flugi Icelandair frá Alicante til Íslands í nótt þegar farþegi var hætt við komin vegna sjúkdóms. Snúa þurfti farþegaþotunni við og lent var í Dublin vegna þar sem sjúklingurinn var fluttur upp á slysadeild. Hlynur Davíð Löve, læknir, var um borð í vélinni og vann þar mikið þrekvirki ásamt hjúkrunarfræðingi sem var á staðnum.

„Ég má auðvitað ekki tjá mig um hagi sjúklingsins en það kom upp mjög alvarleg staða sem hefði getað endað mun verr,“ segir Hlynur sem var á leið úr sumarfríi á Spáni með fjölskyldu sinni. „Ég gaf honum súrefni og lyf í æð og hélt honum stöðugum ásamt indælum hjúkrunarfræðingi, sem ég náði því miður ekki hvað hét.“

Komst lífs af

Hlynur var nýbúin að svæfa son sinn og var að horfa á mynd í afþreyingarkerfi Icelandair þegar kallað var eftir lækni. „Ég var sá eini sem gaf mig fram ásamt hjúkrunarfræðingi og saman eyddum við um það bil þremur tímum í að sinna sjúklingnum.“ Maðurinn sem veiktist komst lífs af og þrátt fyrir að Hlynur viti ekki hvernig honum vegnar sem stendur telur hann að sjúklingurinn muni ná sér.

Það leið tæplega hálftími þar til lent var í Dublin í Írlandi. „Ég fór úr vélinni í grenjandi rigninguna í Dublin til að gefa sjúkraflutningafólki skýrslu um atvikið.“ Hlynur segir að vel hafi gengið að hafa stjórn á ástandinu miðað við aðstæður.

Skjót handtök

„Það var ekki síst vegna handbragða þeirra sem vinna hjá Icelandair sem stóðu sig mjög vel og bættu miklu við mína aðstoð.“ Hárréttar ráðstafanir hafi verið gerðar áður en Hlynur hlúði að sjúklingnum að hans sögn. „Viðbrögð starfsfólksins voru alveg til fyrirmyndar.“

Fjölskyldan lenti ekki á Íslandi fyrr en klukkan fjögur í nótt. „Sem betur fer svaf strákurinn okkar í nótt svo hann gat farið vel hvíldur í leikskólann,“ segir Hlynur. Sjálfur svaf hann ekkert eftir viðburðaríkt flugið en fékk langþráða hvíld í morgun áður en hann mætir aftur til vinnu í kvöld.