Sól­veig Ás­geirs­dóttir, 27 ára, bjargaði lífi bestu vin­konu sinnar, Súsönnu Helga­dóttur, 28 ára, í júlí síðast­liðnum þegar Súsanna fór í skyndi­legt hjarta­stopp á heimili sínu. Tveggja ára sonur Súsönnu lá sofandi í her­bergi sínu þegar at­vikið átti sér stað.

„Við vorum heima hjá henni, ró­leg stelpu­kvöld eins og venju­lega. Við sátum í sófanum að spjalla þegar hún fór skyndi­lega í hjarta­stopp án þess að vera með nokkur veikindi fyrir,“ segir Sól­veig Ás­geirs­dóttir, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að hún hafi hringt í Neyðar­línuna um leið og hóf endur­lífgun, með að­stoð neyðar­línu­starfs­manna, þegar hún áttaði sig á því að hún væri ekki með púls eða andaði. Á þessum tíma var Súsanna orðin blá í framan.

„Ég var í því, að hnoða og blása, þar til sjúkra­flutninga­menn komu á staðinn og tóku við,“ segir Sól­veig.

Í kjöl­farið á þessu dvaldi Súsanna á spítala í tvær vikur þar sem læknar komust að því að hún og fjöl­skylda hennar eru með leyndan hjarta­galla. Í dag er hún með bjarg­ráð og hefur lokið endur­hæfingu sem hún hóf eftir at­vikið.

Þakklát að hafa verið á staðnum

Sól­veig segist þakk­lát fyrir að hafa verið stödd hjá vin­konu sinni þetta kvöld og segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst hefði hún ekki verið á staðnum. Hún er enn fremur þakk­lát fyrir að hafa ný­lega lokið skyndi­hjálpar­nám­skeiði þegar at­vikið átti sér stað en það veitti henni öryggi í afar krefjandi að­stæðum.

„Ég hafði lokið nám­skeiði að­eins mánuði áður,“ segir Sól­veig og er hand­viss um að það sé það sem bjargaði vin­konu sinni.

Súsanna er lengst til vinstri, þá Sólveig, svo Sveinn Kristinsson formaður Rauða krossins á Íslandi og svo Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Mynd/Rauði kross Íslands

Ekki fyrsta námskeiðið

Sól­veig segir að þetta hafi ekki verið fyrsta skyndi­hjálpar­nám­skeiðið hennar og hlær að því að hún hafi ef­laust farið oftar en flestir á slík nám­skeið.

„Það getur svo margt breyst og maður gleymir smá­at­riðum. Það eru nýjar á­herslur á milli ára og mér fannst mjög mikil­vægt á þessari stundu, þegar maður veit ekki alveg hvað er að gerast, að vera ný­búin að fara. Það breytti öllu og þar af leiðandi brást ég rétt við. Þannig að ég myndi klár­lega segja að ég hefði ekki brugðist eins við hefði ég ekki verið ný­búin að fara á skyndi­hjálpar­nám­skeiðið,“ segir Sól­veig.

Hún segir að við­brögð hennar séu þó alls ekki sjálf­sögð. Oft frjósi fólk í þessum að­stæðum þótt það hafi farið á slík nám­skeið.

„Maður veit aldrei fyrir fram hvernig maður bregst við í slíkum að­stæðum en er mjög þakk­lát að ég brást við á þennan hátt og það tók við eitt­hvað „autopilot“ sem stjórnaði ferðinni á meðan ég var í þessum að­stæðum. Maður var ekki beint að hugsa hvað maður var að gera, bara bjarga,“ segir Sól­veig.

Vinkonurnar við afhendingu viðurkenningarinnar.
Mynd/Aðsend

Atvikið mikið áfall

Hún segir að at­vikið sé auð­vitað mikið á­fall, fyrir þær báðar, en að þær séu himin­lifandi að það hafi farið svo vel.

„Við erum himin­lifandi að hún sé enn á lífi og að við getum enn verið bestu vin­konur,“ segir Sól­veig.

Spurð um á­hrif at­viksins til lengri tíma segir Sól­veig það hafa skipt miklu máli fyrir hana að hafa fengið að­stoð og sál­gæslu frá sjúkra­hús­prestinum Ingólfi Hart­vigs­syni.

„Fyrir mig vann hann stór­kost­leg starf í sál­gæslu. Ég veit að mörgum finnst skrítið að tala við prest sem ekki eru trúuð en mér fannst það ekki skipta máli. Þetta var bara sál­gæsla og hann hélt vel utan um mig á þessum tíma. Ég er rosa­lega þakk­lát honum,“ segir Sól­veig.

Ekki óskandi að vera Skyndihjálparmaður ársins

Spurð hvernig það hafi komið til að hún hafi verið til­nefnd sem Skyndi­hjálpar­maður ársins segir Sól­veig að hún viti ekki hver til­nefndi hana en að henni þyki þetta mikill heiður.

„Þetta var ó­trú­legt sím­tal. Ég var mjög hissa og vissi ekki að ég hefði verið til­nefnd. Þetta er ó­trú­legur heiður en þetta er samt skrítinn titill. Ég er mjög stolt af honum en þetta er ekki eitt­hvað sem maður stefnir að í lífinu. Það er kannski ekki ó­skandi að vera skyndi­hjálpar­manneskja ársins því maður veit hvað er því að baki. En því­líkur heiður, og ég er mjög meyr að fá þennan titil,“ segir Sól­veig.

Sól­veig hvetur alla sem geta til að fara á skyndi­hjálpar­nám­skeið.

„Ég vil berjast fyrir þessum boð­skap og vil að þetta verði skylda á vinnu­stöðum og skólum að sækja sér þessa þekkingu því það getur bjargað manns­lífum,“ segir Sól­veig.

Hún segir að hún hafi verið heppin með vinnu­staði sína og þar hafi oft verið boðið upp á skyndi­hjálpar­nám­skeið. Hún hafi farið á fjögurra tíma nám­skeið hjá Rauða krossinum.

Brynhildur Bolladóttir er upplýsingafulltrúi Rauða krossins.

Fjöldi námskeiða í boði

Að sögn Bryn­hildar Bolla­dóttur, upp­lýsinga­full­trúa Rauða krossins, eru nám­skeiðin að fara aftur af stað eftir hlé vegna kórónu­veirufar­aldursins.

Hægt er að kynna sér hér nám­skeiðin sem eru í boði. Hægt er að fara á nám­skeið sem lýtur sér­stak­lega að skyndi­hjálp og öryggi barna og al­mennt skyndi­hjálpar­nám­skeið. Hægt er að fara á 4, 8 eða 12 klukku­stunda nám­skeið.

Ár­lega óskar Rauði krossinn eftir til­nefningum til Skyndi­hjálpar­manns ársins í tengslum við 112 daginn. Til­gangur þess er að vekja at­hygli al­mennings á mikil­vægi skyndi­hjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vett­vangi slysa og veikinda.

Sér­stök val­nefnd fer yfir þær á­bendingar sem berast og út­nefnir Skyndi­hjálpar­mann ársins. Í nefndinni eru full­trúar frá Rauða krossinum, Slysa­varna­fé­laginu Lands­björg, Neyðar­línunni, Land­spítala há­skóla­sjúkra­húsi, Al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra og Lands­sam­bandi slökkvi­liðs- og sjúkra­flutninga­manna.

Í um­sögn val­nefndar segir: Sól­veig sýndi snar­ræði á neyðar­stundu og þessi at­burður sýnir okkur að al­var­legir at­burðir geta orðið hvar sem er. Hver sem er getur lent í þeirri stöðu að þurfa að bjarga með­borgurum sínum, jafn­vel á ró­legu kvöldi heima hjá góðum vini. Sem betur fer er sjald­gæft að jafn ungt fólk og Súsanna fari í hjarta­stopp án nokkurs fyrir­vara en saga þeirra Sól­veigar á erindi við okkur öll, enda gerist hún í að­stæðum sem flestir geta tengt við. Snar­ræði Sól­veigar bjargaði lífi ungrar móður sem átti sér einskis ills von. Sól­veig á svo sannar­lega skilið að vera sæmd titlinum Skyndi­hjálpar­maður ársins.