Sólveig Ásgeirsdóttir, 27 ára, bjargaði lífi bestu vinkonu sinnar, Súsönnu Helgadóttur, 28 ára, í júlí síðastliðnum þegar Súsanna fór í skyndilegt hjartastopp á heimili sínu. Tveggja ára sonur Súsönnu lá sofandi í herbergi sínu þegar atvikið átti sér stað.
„Við vorum heima hjá henni, róleg stelpukvöld eins og venjulega. Við sátum í sófanum að spjalla þegar hún fór skyndilega í hjartastopp án þess að vera með nokkur veikindi fyrir,“ segir Sólveig Ásgeirsdóttir, í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir að hún hafi hringt í Neyðarlínuna um leið og hóf endurlífgun, með aðstoð neyðarlínustarfsmanna, þegar hún áttaði sig á því að hún væri ekki með púls eða andaði. Á þessum tíma var Súsanna orðin blá í framan.
„Ég var í því, að hnoða og blása, þar til sjúkraflutningamenn komu á staðinn og tóku við,“ segir Sólveig.
Í kjölfarið á þessu dvaldi Súsanna á spítala í tvær vikur þar sem læknar komust að því að hún og fjölskylda hennar eru með leyndan hjartagalla. Í dag er hún með bjargráð og hefur lokið endurhæfingu sem hún hóf eftir atvikið.
Þakklát að hafa verið á staðnum
Sólveig segist þakklát fyrir að hafa verið stödd hjá vinkonu sinni þetta kvöld og segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst hefði hún ekki verið á staðnum. Hún er enn fremur þakklát fyrir að hafa nýlega lokið skyndihjálparnámskeiði þegar atvikið átti sér stað en það veitti henni öryggi í afar krefjandi aðstæðum.
„Ég hafði lokið námskeiði aðeins mánuði áður,“ segir Sólveig og er handviss um að það sé það sem bjargaði vinkonu sinni.

Ekki fyrsta námskeiðið
Sólveig segir að þetta hafi ekki verið fyrsta skyndihjálparnámskeiðið hennar og hlær að því að hún hafi eflaust farið oftar en flestir á slík námskeið.
„Það getur svo margt breyst og maður gleymir smáatriðum. Það eru nýjar áherslur á milli ára og mér fannst mjög mikilvægt á þessari stundu, þegar maður veit ekki alveg hvað er að gerast, að vera nýbúin að fara. Það breytti öllu og þar af leiðandi brást ég rétt við. Þannig að ég myndi klárlega segja að ég hefði ekki brugðist eins við hefði ég ekki verið nýbúin að fara á skyndihjálparnámskeiðið,“ segir Sólveig.
Hún segir að viðbrögð hennar séu þó alls ekki sjálfsögð. Oft frjósi fólk í þessum aðstæðum þótt það hafi farið á slík námskeið.
„Maður veit aldrei fyrir fram hvernig maður bregst við í slíkum aðstæðum en er mjög þakklát að ég brást við á þennan hátt og það tók við eitthvað „autopilot“ sem stjórnaði ferðinni á meðan ég var í þessum aðstæðum. Maður var ekki beint að hugsa hvað maður var að gera, bara bjarga,“ segir Sólveig.

Atvikið mikið áfall
Hún segir að atvikið sé auðvitað mikið áfall, fyrir þær báðar, en að þær séu himinlifandi að það hafi farið svo vel.
„Við erum himinlifandi að hún sé enn á lífi og að við getum enn verið bestu vinkonur,“ segir Sólveig.
Spurð um áhrif atviksins til lengri tíma segir Sólveig það hafa skipt miklu máli fyrir hana að hafa fengið aðstoð og sálgæslu frá sjúkrahúsprestinum Ingólfi Hartvigssyni.
„Fyrir mig vann hann stórkostleg starf í sálgæslu. Ég veit að mörgum finnst skrítið að tala við prest sem ekki eru trúuð en mér fannst það ekki skipta máli. Þetta var bara sálgæsla og hann hélt vel utan um mig á þessum tíma. Ég er rosalega þakklát honum,“ segir Sólveig.
Ekki óskandi að vera Skyndihjálparmaður ársins
Spurð hvernig það hafi komið til að hún hafi verið tilnefnd sem Skyndihjálparmaður ársins segir Sólveig að hún viti ekki hver tilnefndi hana en að henni þyki þetta mikill heiður.
„Þetta var ótrúlegt símtal. Ég var mjög hissa og vissi ekki að ég hefði verið tilnefnd. Þetta er ótrúlegur heiður en þetta er samt skrítinn titill. Ég er mjög stolt af honum en þetta er ekki eitthvað sem maður stefnir að í lífinu. Það er kannski ekki óskandi að vera skyndihjálparmanneskja ársins því maður veit hvað er því að baki. En þvílíkur heiður, og ég er mjög meyr að fá þennan titil,“ segir Sólveig.
Sólveig hvetur alla sem geta til að fara á skyndihjálparnámskeið.
„Ég vil berjast fyrir þessum boðskap og vil að þetta verði skylda á vinnustöðum og skólum að sækja sér þessa þekkingu því það getur bjargað mannslífum,“ segir Sólveig.
Hún segir að hún hafi verið heppin með vinnustaði sína og þar hafi oft verið boðið upp á skyndihjálparnámskeið. Hún hafi farið á fjögurra tíma námskeið hjá Rauða krossinum.

Fjöldi námskeiða í boði
Að sögn Brynhildar Bolladóttur, upplýsingafulltrúa Rauða krossins, eru námskeiðin að fara aftur af stað eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins.
Hægt er að kynna sér hér námskeiðin sem eru í boði. Hægt er að fara á námskeið sem lýtur sérstaklega að skyndihjálp og öryggi barna og almennt skyndihjálparnámskeið. Hægt er að fara á 4, 8 eða 12 klukkustunda námskeið.
Árlega óskar Rauði krossinn eftir tilnefningum til Skyndihjálparmanns ársins í tengslum við 112 daginn. Tilgangur þess er að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og veikinda.
Sérstök valnefnd fer yfir þær ábendingar sem berast og útnefnir Skyndihjálparmann ársins. Í nefndinni eru fulltrúar frá Rauða krossinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Neyðarlínunni, Landspítala háskólasjúkrahúsi, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Í umsögn valnefndar segir: Sólveig sýndi snarræði á neyðarstundu og þessi atburður sýnir okkur að alvarlegir atburðir geta orðið hvar sem er. Hver sem er getur lent í þeirri stöðu að þurfa að bjarga meðborgurum sínum, jafnvel á rólegu kvöldi heima hjá góðum vini. Sem betur fer er sjaldgæft að jafn ungt fólk og Súsanna fari í hjartastopp án nokkurs fyrirvara en saga þeirra Sólveigar á erindi við okkur öll, enda gerist hún í aðstæðum sem flestir geta tengt við. Snarræði Sólveigar bjargaði lífi ungrar móður sem átti sér einskis ills von. Sólveig á svo sannarlega skilið að vera sæmd titlinum Skyndihjálparmaður ársins.