Sabit Shontakbaev, 37 ára maður frá Kasakstan, hugsaði sig ekki tvisvar um þegar hann sá þriggja ára gamalt barn hanga út um glugga á áttundu hæð blokkar.
Stelpan hafði hrúgað upp púðum til þess að ná upp að glugganum þar sem hún skreið síðan út um hann. Stelpan hafði hangið í að verða fimmtán mínútur.
Shontakbaev sá hóp safnast fyrir framan blokkina, þegar hann leit upp sá hann stelpuna hangandi í glugganum. Hann hljóp því upp til þess að geta bjargað henni. Hann bankaði á dyrnar á íbúðinni fyrir neðan og fékk að fara út um gluggann hjá þeim til þess að ná í stelpuna.
Shontakbaev var heiðraður af borgarstjóra Nur-Sultan, höfuðborgar Kasakstan, fyrir hugrekkið sem hann sýndi. Miðlar frá Kasakstan segja Shontakbaev eiga von á því að fá þriggja herbergja íbúð og sjónvarp í verðlaun fyrir björgunina.