„Stefnan er að auðvelda fólki að velja miðbæinn þegar kemur að því að sækja verslun og þjónustu sem þar er í boði,“ segir Ívar Freyr Sturluson, markaðs- og sölustjóri Parka Lausnir ehf., en í síðustu viku fór í loftið Parka Spons, sem er íslensk þjónusta sem margir þekkja erlendis sem Parking Validation.

Til að geta boðið upp á Parka Spons þurfa fyrirtæki að ákveða upphæð og skilyrði sem gestir þurfa að uppfylla, eins og til dæmis kaupa fyrir ákveðna upphæð.

Nú er til dæmis hægt að fá ókeypis bílastæði ef farið er út að borða á Fiskmarkaðnum í hádeginu, ef verslað er fyrir 10 þúsund krónur eða meira í verslunum 66°Norður, eða ef látið er smella af sér mynd á Ljósmyndastofu Sillu Páls – þá er hægt að leggja frítt.

„Eins og staðan er í dag að þá er lítið sem ekkert í boði af fríum stæðum. Það þurfa því allir sem ætla að sækja verslanir og þjónustu í miðbænum að greiða fyrir bílastæði og mögulega leggja í bílakjöllurum eins og við Hafnartorg með tilheyrandi kostnaði.

Með Parka Spons erum við að bjóða fyrirtækjum að koma til móts við þá viðskiptavini sem velja sér að versla í miðbæ Reykjavíkur, með því að greiða fyrir bílastæðin með Parka Spons,“ segir Ívar.

Hann segir að þessi þjónusta gefi fyrirtækjum tækifæri til að ná til gesta sem hingað til hafa veigrað sér við að koma í miðbæinn til að sækja þá þjónustu og verslun sem er í boði.

„Nú er jólahátíðin að byrja og teljum við að þetta sé mikilvægur liður í að auðvelda fólki að velja miðbæinn,” segir Ívar.

„Svona þjónusta er þekkt víða erlendis og kallast á enskri tungu Parking Validation. Margir kannast eflaust við að hafa séð þetta í bíómyndum og heyrt setninguna: „Can you validate my parking?“,“ segir Ívar.

Miðborgargesturinn leggur í gjaldskylt stæði og skráir sig í stæðið með Parka-appinu sínu. Síðan kemur hann til fyrirtækisins og að viðskiptum loknum finnur hann fyrirtækið í appinu eða skannar QR-kóða og óskar eftir sponsi.

Fyrirtækið fær þá beiðni í Parka-viðmótið sitt og hafi gesturinn uppfyllt skilyrðin sem það setur getur fyrirtækið samþykkt beiðnina.