Dagur B Eggertson, borgarstjóri, ásamt fulltrúum Bjargs og verktaka tóku fyrstu skóflustungu að 60 leiguíbúðum sem íbúðafélagið mun reisa í Árbæ við Selásbraut og Brekknaás. Bjarg áætlar að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar veturinn 2023-2024 og ætlar að opna fyrir umsóknir næsta vor.

Íbúðirnar verða tveggja til fimm herbergja, á stærðarbilinu 54-106 fermetrar, í sex tveggja hæða fjölbýlishúsum. Svava Jónsdóttir hjá Arkitektúr og ráðgjöf sá um hönnun og Húsvirki annast byggingarframkvæmdir.

Staðsetning er talin heppileg með tillit til útivistar og tenginga við stofnbrautir, skóla, leikskóla, sundlaugar og hestaíþróttir. Gæludýrahald verður einnig leyft í hluta íbúðanna en taka þarf sérstaklega fram í umsókn ef óskað er eftir slíkri íbúð.