Öldungadeildarþingmaðurinn og forsetaframbjóðandinn Elizabeth Warren hefur beðist afsökunar á að hafa farið í DNA próf til þess að sanna ættartengsl sín við Cherokee ættbálk frumbyggja, en athæfið vakti töluverða reiði meðal samfélags frumbyggja í Norður-Ameríku.

Athæfið vakti mikla athygli en upprunalega átti það að þjóna sem svar við gagnrýni pólitískra andstæðinga hennar, meðal annars Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem gáfu ítrekað í skyn að hún lygi til um ættartengsl sín.

Samkvæmt umfjöllun New York Times hringdi Warren í Bill John Baker, sem er leiðtogi Cherokee ættbálksins en samtalið var stutt og baðst hún afsökunar á því að hafa alið á misskilningi um ættbálkatengsl og að hún gerði sér grein fyrir því að hún teljist ekki vera hluti af Cherokee þjóðinni eða öðrum ættbálkum. Það sé hluti af menningu og hefðum en ekki blóði.

Áður hefur Warren þráast við og sagt sig ekki hafa gert neitt rangt en samkvæmt heimildarmönnum New York Times hefur hún séð að sér og óttaðist að ummæli sín kynnu að hafa skaðað tengsl hennar við hópa frumbyggja í Bandaríkjunum sem og vinsældir hennar hjá minnihlutahópum.