Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, spurði á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar ætluðu að beita sér fyrir því að gera Hafnartorg að lygnari stað og veðursælli.

Í fyrirspurn Kolbrúnar segir hún að Flokkur fólksins hafi áður talað um líkantilraunir í vindgöngum og að umræða um vindstrengi í og við Hafnartorg gefi tilefni til að endurtaka þá umræðu.

Í líkantilraunum sé hægt að mæla hvernig form húsa og staðsetning hafa áhrif á vindstrengi. Kassalaga hús, eins og séu á Höfðatorgi, beini vindi jafnt upp og niður með tilheyrandi vindstrengjum niður við jörð og vill Kolbrún að skipulagsyfirvöld í borginni taki upp þess háttar vinnubrögð.