Rúmlega sjötugur prins, fyrrverandi yfirmaður úr hernum, dómari og fyrrverandi þingmaður eru í hópi 25 manna sem hafa verið handteknir í Þýskalandi, grunaðir um að skipuleggja valdarán, til að mynda með vopnaðri árás á þýska þingið.

Fram hefur komið að handtökuaðgerðir lögreglunnar hafi verið umfangsmiklar.

Talið er að þessar áætlanir hafi verið innblásnar af árásinni á Bandaríkjaþing í janúar árið 2021, sem og QAnon-samsæriskenningunum. Þeir eiga að afneita tilvist Þýskalands eins og það er í dag og vilja meina að „Þýska ríkið“ eigi enn rétt á sér þrátt fyrir fall þess í síðari heimsstyrjöldinni 1945.

Innanríkisráðherra Þýskalands, Nancy Faeser, segir þennan hóp vera andstæðinga lýðræðisins, en tekur fram að það sé óljóst á þessu stigi málsins hversu langt áætlanirnar voru komnar og hvort einhverjar líkur væru á því að þær myndu heppnast. Þó tók hún fram að brugðist yrði við málinu af fullum krafti.

Heinrich þrettándi, leiðtogi hópsins, á ættir sínar að rekja til þýskra konungsfjölskyldna. Hann tjáði sig við þýska fjölmiðla í ágúst á þessu ári og þar sagðist hann vera „bitur gamall karl“ með „klikkaðar skoðanir byggðar á samsæriskenningum“.

Hann hafi snúið baki sínu við fjölskyldu sinni, sem hafi að sama skapi snúið baki sínu við honum.