Sindri Þór Stefáns­son var í Héraðs­dómi Reykja­ness í dag dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að Bitcoin-málinu svo­nefnda. Alls voru sjö á­kærðir í málinu, og var dómurinn yfir Sindra sá þyngsti. Matthías Jón Karlsson fékk næstþyngsta dóminn, eða tveggja og hálfs árs fangelsi. Öllum sjö var gert að greiða Advania 33 milljónir í skaðabætur.

Þá hlaut Hafþór Logi Hlynsson tuttugu mánaða dóm og Pétur Stanislav Karlsson og Viktor Ingi Jónasson átján mánaða fangelsisdóm. Ívar Gylfason var dæmdur í fimmtán mánaða skilorðsbundið fangelsi og Kjartan Sveinarsson í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Gæsluvarðhald sem ákærðu sættu dregst frá refsingunni. 

Sindri Þór var sagður höfuð­paur málsins og játaði hann við aðal­með­ferðina aðild sína að þjófnuðum úr gagna­verum í Borgar­nesi og Reykja­nesi. Hann neitaði hins vegar að hafa skipu­lagt og lagt á ráðin um brotin. Matthías Jón var á­kærður fyrir alla þjófnaðina og til­raunirnar, en hann játaði að hafa farið inn í gagna­verin en neitaði að hafa undir­búið, lagt á ráðin og skipu­lagt brotin, líkt og fram kemur í á­kæru. 

Sjá einnig: „Fékkstu kóðann?“

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra, segir í samtali við Fréttablaðið að dómurinn hafi komið sér á óvart - enda hafi hann búist við lægri dómi. Hins vegar eigi hann eftir að kynna sér forsendur og niðurstöður dómsins og vilji því minna tjá sig á þessum tímapunkti. 

Refsing fyrir þjófnað getur að há­marki verið sex ára fangelsi og fór á­kæru­valdið fram á 5 ára fangelsi í til­viki Sindra Þórs Stefáns­sonar, þriggja ára fangelsi fyrir Matthías og Haf­þór Loga Hlyns­son og tveggja ára fangelsi fyrir Pétur Stanislav Karls­son og Viktor Inga Jónas­son. Allir þrír síðast­nefndu neituðu sök við aðal­með­ferð málsins. Þá fór á­kæru­valdið fram á tveggja ára fangelsis­dóm yfir öryggis­verðinum Ívari Gylfa­syni sem einnig neitaði sök.

Verð­mæti upp á hundruð milljónir 

Verð­mæti tölvanna sem stolið var er talið hlaupa á hundruðum milljóna en vélarnar voru sér­hannaðar til að grafa eftir bitcoin. Vélunum var stolið úr gagna­verum bæði í Reykja­nes­bæ og Borgar­byggð í þremur inn­brotum sem framin voru á tíma­bilinu desember 2017 til síðari hluta janúar 2018. 

Sjá einnig: „Óttast menn sem eru ekki hér inni“

Rann­sókn málsins hefur verið um­fangs­mikil og leitin að hinum stolnu tölvum teygt sig alla leið til Kína þar sem 600 tölvur voru í ó­skilum fyrr í vor. Sú leit hefur þó enn engan árangur borið og tölvunar enn ó­fundnar.