Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, vill að egypska Kehdr-fjölskyldan fái varanlegt dvalarleyfi hér á landi með „vísan í skilyrðislausa kærleiksskyldu kristinna manna.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Agnesi, Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskupi á Hólum og Kristjáni Björnssyni, vígslubiskupi í Skálholti.

Með þessu vilja biskuparnir bregðast við fyrirhugaðri brottvísun Kehdr-fjölskyldunnar sem til stendur að senda aftur til Egyptalands á morgun.

Mikil umræða hefur verið um mál fjölskyldunnar undanfarna daga en hjónin Doaa og Ibrahim komu hingað til lands í ágúst 2018 ásamt fjórum börnum sínum til að sækjast eftir alþjóðlegri vernd. Eru börnin á aldrinum 5 til 12 ára og hafa þau gengið í skóla hér á landi.

Segja langan málsmeðferðartíma vera áhyggjuefni

Biskuparnir segja það áhyggjuefni hversu langur málsmeðferðartími er í málum barnafjölskyldna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi.

„Kristin trú hvetur okkur til að standa vörð um mannlegt líf og hvetur einnig til gestrisni og umhyggju fyrir öllum mönnum. Öll eigum við rétt á mannhelgi og vernd þegar að henni er sótt.“

Þá vísa biskuparnir til ákvæðis í stjórnarskrá lýðveldisins þar sem segir að „Börnum [skuli] tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Þessi stjórnarskrárvarða regla sé svo útfærð í barnalögum, barnaverndarlögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Í öllum þessum lögum segir að hagsmunir barna skuli ráða för þegar ákvarðanir í málum sem þeim tengjast eru teknar.“

Einnig taka þeir undir með áhyggjum Rauða kross Íslands sem sagði meðal annars í yfirlýsingu að horfa beri sérstaklega til hagsmuna barna þegar afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd dragist úr hófi fram.

Synjað um vernd

Dooa og Ibrahim segjast hafa orðið fyrir ofsóknum í Egyptalandi vegna þátttöku Ibrahim í stjórnmálastarfi. Útlendingastofnun synjaði þeim um vernd í lok júlí í fyrra og mat að fjölskyldan væri örugg í Egyptalandi.

Var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála rúmum 15 mánuðum síðar en til stóð að fjölskyldunni yrði vísað úr landi í febrúar. Tafðist það vegna heimsfaraldurs kórónaveiru.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, hefur áður sagt þau vera ósammála niðurstöðunni og að þau óttist mjög að verða bæði handtekin í Egyptalandi. Þá hafa á þrettánda þúsund manns sett nafn sitt við undirskriftalista þar sem brottvísun fjölskyldunnar er mótmælt.

Fréttin verður uppfærð.