Agnes M. Sigurðar­dóttir, biskup Ís­lands, gaf skýrslu í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun, þar sem aðal­með­ferð í máli séra Skírnis Garðars­sonar gegn Agnesi og Þjóð­kirkjunni fer fram.

Agnes sagðist meðal annars ekki minnast þess að hafa krafið Skírni um að hætta störfum hjá kirkjunni.

Skírnir stefndi Agnesi og Þjóð­kirkjunnar vegna þjónustu­loka hans sem sóknar­prests hjá Lága­fells­sókn í Mos­fells­bæ og síðar sem héraðs­prests.

Í málinu gerir Skírnir kröfu um tæpar tíu milljónir króna í bætur, annars vegar vegna fjár­tjóns og hins vegar miska. Skírnir lítur svo á að honum hafi verið vikið úr starfi með ó­lög­mætum hætti.

Skírni var til­kynnt um þjónustu­lok eftir að hann sagði for­stjóra Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða frá af­skiptum sínum af konu í bak­varðar­sveit sem grunuð var um að villa á sér heimildir og sagði frá málinu í við­tali á vef Vísis.

Beittur þrýstingi

Í héraðs­dómi í morgun gaf Skírnir sjálfur skýrslu vegna málsins.

Sumarið 2015 kvartaði Skírnir undan ein­elti á vinnu­stað til Vinnu­eftir­litsins og í kjöl­farið var Skírnir leystur frá störfum tíma­bundið í tvo mánuði.

Að­spurður hvort biskup hafi skorað á hann að hætta störfum í kjöl­farið sagði Skírnir svo ekki vera hins vegar hafi hún ýjað að því að það væri hennar hagur að hann myndi segja af sér en hún hafi ekki sagt það beint út.

Í desember 2015 var gerði Þjóð­kirkjan sam­komu­lag við Skírni um breytingu á vinnu­högum hans. Í upp­hafs­orðum sam­komu­lagsins segir að það hafi verið gert að ósk hans.

Skírnir sagði það rangt. „Ég óskaði aldrei eftir þessu sam­komu­lagi.“ Hann hafi skrifað undir það eftir mikinn þrýsting. „Ég var beittur mjög miklum þrýstingi,“ sagði Skírnir. Honum hafi verið gert það ljóst að hann yrði rekinn ef hann skrifaði ekki undir.

Með sam­komu­laginu hafi hann verið gerður að héraðs­presti en inn í því felist enginn söfnuður heldur hafi það verið meira eins og af­leysingar­starf.

Fjölmiðlaviðtöl urðu að deiluefni

Skírnir fór í við­tal hjá Stundinni í janúar 2017 þar sem hann sagðist hafa verið hrakinn úr em­bætti sínu í Lága­fellsókn í Mos­fells­bæ í kjöl­far þess að hann upp­lýsti um ein­eltið. Ger­endur í málinu hafi haldið sínum störfum en hann hafi sætt launa­skerðingu og vísar hann þar til sam­komu­lagsins um að hann gerðist héraðs­prestur.

Að­spurður um við­brögð Agnesar biskups vegna við­talsins segir Skírnir hana hafa kallað sig á fund en þar hafi hún sagt hann bera kirkjuna þungum sökum.

Árið 2020 kom Skírnir svo fram í við­tali hjá Vísi í tengslum við konuna sem grunuð var um skjala­fals í bak­varðar­sveit á hjúkrunar­heimilinu Bergi í miðjum kórónu­veirufar­aldri. Í héraðs­dómi í morgun sagðist Skírnir hafa til­kynnt um málið vegna sinnar borgara­legu skyldu og að hann hafi ekki verið sá fyrsti sem til­kynnti konuna.

Spurður segir Skírnir við­brögð Agnesar vegna málsins hafa verið ein­kenni­leg. Hún hafi skil­greint þetta sem brot á störfum. Skírnir segist hins vegar ekki hafa brotið neinn trúnað né þagnar­skyldu því hún hafi ekki verið til staðar. Í kjöl­farið hafi Agnes gert að­för að hans per­sónu og hans æðru og starfs­heiðri.

Starfslokin komu að óvart

Þremur dögum eftir við­talið á Vísi hafi verið haldinn fundur þar hafi Skírnir fengið eitt­hvað sem var lýst sem tauga­á­falli eða hjarta­á­falli. Skírnir sagðist ekki muna alla at­burðar­rás fundarins.

Fyrir dómi kom fram að út frá þessum fundi hafi verið gerð greinar­gerð þar sem fram kom að Skírnir játaði mis­tök sín og fleira. Skírnir sagðist í morgun ekki hafa skrifað greina­gerðina sjálfur, hann hafi ekki verið í á­standi til þess.

Í kjöl­farið hafi verið gefin út yfir­lýsing á vef­síðu Kirkjunnar um að þjónustu hans væri ekki lengur óskað sem allir fjöl­miðlar hefðu fjallað um.

Skírnir segir starfs­lok sín hafa komið sér í opna skjöldu.

„Ég upp­lifði þetta sem mjög niður­lægjandi, mér fannst þetta eins og að hella salti í opin sár,“ sagði Skírnir fyrir dómi í morgun.

Skírnir sagði að­gerðir kirkjunnar ekki hafa verið rétt­mætar hann hafi flekk­lausan feril og ó­flekkað mann­orð, eftir því samt hann best viti.

Biskup hafi fundið vanlíðan Skírnis

Næst gaf Agnes skýrslu í gegnum síma í héraðs­dómi í morgun.

Að­spurð sagðist Agnes ekki geta greint frá því af hverju Skírnir hafi verið sendur í tíma­bundið leyfi frá störfum. Þá hafi til­flutningurinn í starfi haft langan að­draganda.

Agnes sagði að í at­hugun vinnu­staða­sál­fræðings hafi ekkert komið fram sem benti til þess að ein­elti í starfs­um­hverfi Skírnis hefði verið að ræða.

Varðandi sam­komu­lag um til­færslu Skírnis í starfi var Agnes spurð hvort hún hafi beitt hann þrýstingi til að sam­þykkja sam­komu­lagið. Agnes sagði það ekki hafa verið sína upp­lifun á sínum tíma og sé það ekki enn­þá. Málið eigi mun lengri að­draganda. Hún hafi orðið vör við það að Skírni hafi liðið illa í Lága­fells­sókn og að hann hafi beðið sig í langan tíma að skipta um starfs­vett­vang.

Að­spurð hvort hún hafi krafið hann um að láta af störfum svaraði Agnes, „ég minnist þess ekki.“

Hafi brotið trúnað

Í kjöl­far við­tals Skírnis við Vísi vegna máls konu í bak­varðar­sveitinni kom Agnes fram í sama miðli þar sem hún sagði Skírni hafa brotið þagnar­skyldu sína og gerst sekur um trúnaðar­brot.

Agnes sagði brotið Skírnis felast í því að hafa sagt frá sam­skiptum sínum við fyrrum sóknar­barn sitt á opin­berum vett­vangi, í við­kvæmu máli.

Hún hafi í kjöl­farið farið fram á að þjónustu Skírnis í Þjóð­kirkjunni yrði lokið.

Agnes sagði biskup þurfa að bregðast við þegar þagnar­skylda er brotin þá hafi komið erindi frá konunni sem um­ræddi til Biskups­stofu vegna málsins.

Spurð út í hvað hafi gengið á á fundi við Skírni í apríl 2020 þegar hann hafi orðið fyrir miklu á­falli sem hafi verið líst sem tauga­á­fall eða hjarta­á­fall sagði Agnes hann hafa tekið erindinu mjög illa, „og brást við mjög sterkt það má kalla það tauga­á­fall.“

Sjaldgæft mál

Að lokum var Agnes spurð hvort það hafi verið nauð­syn­legt að greina frá því að þjónustu Skírnis hafi ekki lengur verið óskað á vef­síðu Kirkjunnar og hvort það sé al­mennt verk­lag varðandi þjónustu­lok annarra starfs­manna kirkjunnar sagði Agnes mál líkt og þetta afar sjald­gæf og bætti svo við að Skírnir hafi sjálfur verið búinn að koma fram í fjöl­miðlum.

Má ætla hún sé að vísa til við­tala Skírnis í fjöl­miðlum, þó ekki um starfs­lok hans.

Þá sagði Agnes jafn­framt að Skírni hafi verið til­kynnt um málið í tölvu­pósti einnig.

Aðalmeðferð málsins hefur staðið í allan dag og lýkur henni með munnlegum málflutningi lögmanna beggja aðila. Búast má við dómi í málinu innan fjögurra vikna.