Biskup Ís­lands hefur hafnað kröfum séra Skírnis Garðars­sonar um að aftur­kalla á­kvörðun sína um að leysa hann undan þjónustu­skyldu. Þetta kemur fram í bréfi biskups Ís­lands til Skírnis sem Frétta­blaðið hefur undir höndum. Skírnir sendi biskup kröfu­bréf fyrr í mánuðinum þar sem hann krafðist þess að fá að snúa aftur til sinna starfa ella myndi hann sækja skaða- og miska­bætur.

Skírni var vikið frá störfum hjá ís­lensku þjóð­kirkjunni í lok apríl eftir að hafa rofið starfs- og siða­reglur er hann greindi frá mál­efnum sóknar­barns í við­tali við Vísir.is þann 11. apríl síðast­liðinn.

Í við­talinu sakaði Skírnir konu um að hafa beitt svikum til þess að fá fjár­hags­að­­stoð úr líknar­­sjóði Lága­­fells­­kirkju þegar hann var prestur þar árið 2013 en konan sem um ræðir var ný­verið sökuð um skjala­fals í bak­varðar­­sveit á hjúkrunar­heimili í Bolungar­­vík. Konan kærði hann í kjöl­farið fyrir brot á per­­sónu­verndar­lögum.

Í svari biskups Ís­lands til Skírnis vitnar biskup í Skírni sjálfan úr hans eigin kröfu­bréf en þar gengst hann „undan­bragða­laust við broti sínu“ að mati biskups.

Séra Skírnir Garðarsson.
Mynd/Mosfellingur

„Ég er sjálfum mér reiður fyrir þessar sakir“


„Ég iðrast þess að hafa brotið trúnað gagn­vart kirkjunni og skjól­stæðingi mínum þarna um kvöldið nú um daginn. Þetta var fljót­færni og gert í fram­haldi af mein­lausri fyrir­spurn, ég las ekki yfir próf­örk fréttarinnar sem svo birtist og ég áttaði mig um seinan á að þetta væri al­var­legt mál. Ég er sjálfum mér reiður fyrir þessar sakir, og bið alla af­sökunar á, það mun ég gera aftur ræki­lega, ef mér auðnast að starfa á­fram sem héraðs­prestur,“ skrifar Skírnir í kröfubréfi sínu til biskups.

„Fyrr­nefnt brot mitt er tengt þessum kring­um­stæðum, og kannski flaut úr bikar mínum í sím­talinu við blaða­konuna, þetta var ekki fyrir fram á­kveðið brot,“ skrifar hann enn fremur.

Nýtur óskertra launa til 1. desember

Af þessu til­efni segir biskup að á­kveðið hafi verið að leysa Skírni undan þjónustu­störfum sem héraðs­prestur þann tíma sem eftir stendur af ráðningu hans. „Það er hins vegar ekki svo að ráðningar­sam­bandi þjóð­kirkjunnar við sr. Skírni hafi verið rift. Á grund­velli ráðninga­sam­bandsins mun sr. Skírnir á­fram njóta ó­skertra launa út skipunar­tímann sem mun vera til 1. desember nk.“

Í ljósi skrif­lega and­mæla Skírnis við biskup segir kirkjan að ekki hafi verið þörf á að fara í rann­sókn á brotum hans. „Þar sem hann gengst við al­var­legu broti gegn starfs­skyldum sínum, var engin þörf á því að gera sér­staka rann­sókn á ætluðu broti. Í ljósi al­var­leika þagnar­skyldu­brotsins lítur biskup svo á að meðal­hófs hafi verið gætt með því að láta ráðningar­sam­bandið haldast þannig að sr. Skírnir heldur öllum starfs­kjörum sínum út ráðningar­tímann þótt starfs­fram­lag hans sé af­þakkað.“