Ummæli Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands um að minnkandi traust til þjóðkirkjunnar mætti rekja til siðrofs þjóðarinnar hafa vakið hörð viðbrögð. Agnes var gestur í Kastljósi í kvöld þar sem hún reyndi að skýra ummæli sín og sagði að siðrof væri ekki það sama og siðleysi. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði hjá Háskóla Íslands segir biskup ekki geta, frekar en annað fólk, notað orð í annarri merkingu en er viðurkennd og ætlast til að fólk skilji þau þannig.

„Siðrof er ekki siðleysi. Siðrof er rof við siðinn, sem við höfum lifað eftir um aldir á Íslandi, sem er mótaður af kristnum gildum og kristinni trú,“ sagði Agnes í Kastljósi. „Ef við fræðum ekki börn framtíðarinnar um það sem við byggjum okkar menningu, hefðir og siði á, þá tel ég það vera siðrof. Það er ekki siðleysi.“

Það liggi alveg fyrir hvað orðið merki

heyrði að biskupinn vill ekki kannast við merkingu eigin orða og segir "Siðrof er ekki siðleysi. Siðrof er rof við...

Posted by Eiríkur Rögnvaldsson on Tuesday, October 29, 2019

„Það liggur alveg fyrir hvað „siðrof“ merkir,“ heldur Eiríkur áfram og vitnar í grein af Vísindavefnum orðum sínum til stuðnings. Þar stendur: „Oftast er talað er um siðrof þegar siðferðileg viðmið og almennt viðurkennd gildi í samfélagi víkja fyrir siðleysi og upplausn eða sem getuleysi til þess að uppfylla siðferðisstaðla samfélagsins.“

Merking orðsins er því skýr fyrir Eiríki en burt séð frá því þá heldur hann að kristnifræðikennsla hafi lítið með það að gera hvort fólk hafi kristileg gildi í heiðri. „Ég er ekki í nokkrum vafa um að þjóðfélagið er miklu betra og manneskjulegra á flestum sviðum en það var þegar við lærðum biblíusögurnar utan að og Gideonfélagið dreifði Nýja testamentinu í skólum,“ segir hann að lokum í færslunni.